Innlent

Verður hægt að stinga bílnum í samband

Bílar framtíðarinnar verða knúnir áfram með rafmagni í bland við hefðbundið eldsneyti. Ólíkt eldri tvinnbílum, sem fyrir eru, verður hægt að stinga þessum í samband við rafmagn og hlaða þá á næturnar meðan ökumaður sefur. Framkvæmdastjóri Orkusetursins segir þetta hagkvæma framtíðartækni og góða búbót fyrir orkufyrirtækin.

Þetta kom fram í erindi Sigurðar Friðleifssonar, framkvæmdastjóra Orkusetursins, á fundi umhverfisráðuneytisins og Stofnunar Sæmundar fróða við Háskóla Íslands sem haldinn var fyrir helgi. Verkefni Orkusetursins er að auka vitund almennings og fyrirtækja um skilvirka orkunotkun og möguleika til orkusparnaðar. Sigurður ræddi lausnir í samgöngu- og orkumálum í tengslum við spurninguna fundarins hvort hægt væri að leysa loftslagsvandann.

Sigurður sagði bílaflota Íslendinga ekki sérlega sparneytinn í dag og gerði að umtalsefni tegund bíla sem gæti orðið að veruleika innan fimm til tíu ára, önnur kynslóð tvinnbíla sem margir þekki í dag - blöndu rafmagns- og bensínbíla. Sigurður segir þróun bílanna fylgja þróun rafhlaðna.

Sigurður segir þetta geta orðið góða búbót fyrir orkufyrirtækin hér á landi og opnað fyrir þeim nýjan markað. Samkvæmt lauslegum útreikningum Sigurðar miðað við tvö hundruð þúsund bíla flota hér landi gæti þetta þýtt ellefu hundruð gígavattsstundir á ári eða um tíu milljarða króna til orkufyrirtækjanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×