Viðskipti innlent

Sagði upp þjónustusamningi við Tal vegna skulda

Vodafone hefur sagt upp þjónustusamningi milli fyrirtækisins og Tals þar sem Tal skuldar Vodafone á þriðja hundrað milljónir króna. Í stefndi að rekstur Tals kæmist í uppnám vegna þessa en fyrirtækið hefur nú náð samkomulagi við Símann um fjarskiptaþjónustu.

Í byrjun október ógilti Samkeppniseftirlitið samruna Vodafone og Tals, sem er í eigu Auðar fagfjárfestasjóðs, en það var niðurstaða eftirlitsins að samruninn myndi leiða til verulega aukinnar samþjöppunar á fákeppnismarkaði á sviði fjarskipta.

Án íhlutunar yrði staðan sú að aðeins tveir stórir aðilar, Síminn og Vodafone, myndu bjóða heildstæða fjarskiptaþjónustu, auk þess sem nokkrir minni aðilar myndu veita þjónustu á tilteknum afmörkuðum sviðum.) Eftirlitið lítur svo á að Tal sé mikilvægur keppinautur bæði Símans og Vodafone þar sem félagið býður upp á heildarlausnir á sviði fjarskipta.

Tal hefur stuðst við þjónustusamning við Vodafone, en fyrirtækið rekur ekki eigið fjarskiptakerfi. Samkvæmt heimildum fréttastofu hefur Vodafone nú rift þessum þjónustusamningi við Tal, en Tal skuldar fyrirtækinu á þriðja hundrað milljónir króna. Var það meðal annars vegna þessara vanefnda sem Vodafone sagði samningnum upp. Samkvæmt upplýsingum fréttastofu stefndi í að rekstur Tals yrði í nokkru uppnámi vegna þessa en án þjónustusamnings getur fyrirtækið ekki veitt viðskiptavinum sínum fjarskiptaþjónustu. Með öðrum orðum, þeir geta ekki hringt eða sent sms.

Samkvæmt heimildum fréttastofu hefur Tal átt í viðræðum við Símann um samtarf. Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri Símans, sagði í samtali við fréttastofu í dag að Tal hefði náð samkomulagi við Símann um flest atriði er snúa að fjarskiptaþjónustu. Síminn hefði því tryggt Tal fjarskiptaþjónustu sem þýðir notendur fyrirtækisins lenda ekki í vandræðum. Þá sagði Sævar Freyr að á ákveðnum sviðum væri samstarf fyrirtækjanna þegar orðið virkt.

Viktor Ólason, forstjóri Tals, er staddur erlendis. Hann staðfesti að Vodafone hefði sent Tal bréf og farið fram á riftun á fjarskiptasamningi milli fyrirtækjanna. Hann sagði hins vegar að ágreiningur væri milli Tals og Vodafone um þær fjárhæðir sem Vodafone telur Tal skulda. Viktor sagði að samningar við Símann myndu síðan tryggja að viðskiptavinir Tals myndu áfram njóta sömu þjónustu á sömu kjörum og þeir hafa í dag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×