Erlent

Bush mærir Letta

George Bush, forseti Bandaríkjanna, fagnar þeim skrefum sem yfirvöld í Lettlandi hafa stigið í átt til frelsis og lýðræðis eftir að landið varð frjálst frá Sovétríkjunum. Bush kom í opinbera heimsókn til Lettlands í gær og markar það upphaf heimsóknar hans til Evrópu þar sem hann tekur þátt í hátíðarhöldum í tilefni af því að 60 ár eru liðin frá lokum Síðari heimstyrjaldar. Bush situr meðal annars ráðstefnu Eystrasaltsríkjanna Eistlands, Lettlands og Litháens, sem haldin er í Lettlandi, um lýðræðisþróun undanfarinn áratug. Ríkin þrjú gengu til liðs við Atlantshafsbandalagið og Evrópusambandi í fyrra eftir að hafa öðlast sjálfstæði frá Sovétríkjunum sálugu árið 1991. Bandaríkjaforseti sagði við Vairu Vike-Freiberga, forseta Lettlands, að sér þætti það afar ánægjulegt að koma til lands sem virti frelsið eins mikið og raun bæri vitni. Gríðarleg öryggisgæsla er í Ríga, höfuðborg Lettlands, vegna heimsóknar Bandaríkjaforseta en heimsóknin hefur farið töluvert fyrir brjóstið á stjórnvöldum í Moskvu vegna ummæla Bush um að Sovétríkin hafi hernumið Eystrasaltsríkin í fimm áratugi, eftir ósigur Hitlers.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×