Innlent

Telur að ríkið eigi að fjárfesta í vegagerð í kreppu

Fyrrum samgönguráðherra segir þörf á að koma umfangsmikilli vegagerð af stað sem fyrst. Hún sé umferðaröryggismál og nú sé hagstætt að bjóða út þessi verkefni.

Samtök atvinnulífsins stóðu í morgun fyrir opnum fundi um samgöngumál. Meðal frummælenda á fundinum var Kristján Möller, alþingismaður og fyrrverandi samgönguráðherra.

„Vandamálin eru náttúrulega þau að við höfum takmarkað fé frá ríkissjóði til að leggja í hefðbundnar ríkisframkvæmdir. Þð eru einungis 6 milljarðar á þessu ári og ég óttast að það verði minna næsta ári. Þannig okkur vantar að gefa í og þess vegna var rætt um þessar stórframkvæmdir upp á 40 milljarða bæði hér Suðvestanalands og með Vaðlaheiðargöngum í stöðugleikasáttmálanum 2009."

Margt í stöðugleikasáttmálanum á hins vegar enn eftir að koma til framkvæmda en Kristján segir það mikilvægt til að auka hagvöxt í landinu og minnka atvinnuleysi. Hann segir að skapa þurfi sátt meðal allra aðila um hvernig eigi að fjármagna þessar framkvæmdir.

„Þessar vegaframkvæmdir sem verið er að tala um hér eru fyrst og fremst umferðaröryggismál og bættar samgöngur þó svo það fylgi svo með að það er hagstætt að bjóða út núna og ríkið á að vera að framkvæma í kreppu en ekki í þenslu," segir Kristján.

Þá telur hann málflutning FÍB varðandi vegtolla ekki hafa verið réttmætan. „Ég held að ef að þeir myndu setjast að borðinu og fá allar upplýsingar og vinna með þeim eins og við höfum verið að gera þá sjá þeir að þetta er vel framkvæmanlegt. Svipað og gerðist með Vaðlaheiðargöng þegar þeir fengu réttar upplýsingar þá lágu útreikningar okkar eiginlega nákvæmlega saman."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×