Erlent

Í­hugar að beita Kína refsi­að­gerðum fyrir kórónu­veirufar­aldurinn

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Donald Trump segir ríkisstjórn Bandaríkjanna íhuga að beita Kína refsiaðgerðum fyrir kórónuveirufaraldurinn.
Donald Trump segir ríkisstjórn Bandaríkjanna íhuga að beita Kína refsiaðgerðum fyrir kórónuveirufaraldurinn. EPA/JIM LO SCALZO

Donald Trump, Bandaríkjaforseti, segir ríkisstjórn landsins íhuga að beita Kína refsiaðgerðum fyrir að hafa valdið kórónuveirufaraldrinum. Hann sagði í gærkvöldi að hann hefði séð sönnunargögn sem bentu til þess að veiran hafi verið búin til á tilraunastofu í Wuhan.

Leyniþjónusta Bandaríkjanna gaf það út í gær að orðrómar um að veiran hafi verið búin til á tilraunastofu séu ekki á rökum reistir. Samsæriskenningar hafa sprottið upp um tilurð veirunnar og hefur Trump blásið kenningunum byr undir báða vængi og ítrekað haldið því fram að upptök veirunnar séu önnur en náttúruleg og hótað að láta Kína gjalda fyrir útbreiðslu hennar.

Trump hefur ekki látið á sér standa og gagnrýndi einnig Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina á dögunum fyrir viðbrögð við veirunni. Í kjölfarið frysti hann greiðslur Bandaríkjanna til stofnunarinnar.

Trump ýjaði að því í viðtali við Reuters í gær að Kínverjar hefðu vísvitandi sleppt faraldrinum lausum og þráast við að birta upplýsingar um ógnina sem af honum stafaði. Aðalástæðan væri að koma í veg fyrir endurkjör Trump í forsetakosningunum í haust og tryggja kjör Joe Biden, frambjóðandaefnis Demókrata.


Tengdar fréttir

Trump stöðvar lokun sláturhúsa

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur fyrirskipað að sláturhús skuli áfram vera opin til að tryggja fæðuöryggi landsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×