Innlent

Íslenski dansflokkurinn fær góðar viðtökur í Austurríki

Myndir úr Svaninum voru í forgrunni á öllu kynningarefni hátíðarinnar í Dornbirn.
Myndir úr Svaninum voru í forgrunni á öllu kynningarefni hátíðarinnar í Dornbirn. Mynd/ÍD
Íslenski dansflokkurinn fékk mjög góðar viðtökur á danshátíð í Dornbirn, Austurríki, en þetta er í annað sinn á stuttum tíma sem dansflokkurinn sýnir á austurrískri danshátíð.

Mikil áhersla var lögð á sýningu Íslenska dansflokksins í allri kynningu á danshátíðinni að sögn Jóhönnu Pálsdóttur, markaðsstjóra dansflokksins, og voru myndir úr sýningunni Svanurinn í forgrunni í öllu kynningarefni ásamt myndefni úr náttúru Íslands.

Í fréttatilkynningu frá flokknum er vísað í tvær gagnrýnir sem flokkurinn fékk í austurrískum blöðum, en umfjöllun um flokkinn í þarlendum miðlum er sögð hafa verið einkar góð:

Gagnrýnandi hjá blaðinu Neue Vorarlberger Tageszeitung sagði að „Svanurinn í flutningi Íslenska dansflokksins reyndist vera hápunktur hátíðarinnar" og bætti svo við að verkið hafi verið tæknilega fullkomið, tilfinningarík upplifun og hlaðin erótískri spennu.

Gagnrýnandi hjá blaðinu Volksblatt tók í sama streng sagði að Svanurinn væri „töfrandi og margslungið verk" og einnig að það væri „mjög tilkomumikið verk sem skildi mikið eftir sig".

Þá fékk sýning flokksins í Linz í apríl fimm stjörnur af sex mögulegum í dómum blaðsins OÖNachrichten.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×