Innlent

Hagsmunamál Íslands rædd

Össur Skarphéðinsson
Össur Skarphéðinsson
Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra átti, í framhaldi af ríkjaráðstefnu Evrópusambandsins og Íslands í Brussel, fundi með Stefan Füle, stækkunarstjóra í framkvæmdastjórn ESB, Mariu Damanaki, sem fer með sjávarútvegsmál í framkvæmdastjórninni, og Olli Rehn, sem fer með efnahags- og gjaldeyrismál.

Á fundi hans með Füle stækkunarstjóra ítrekaði Össur þann vilja Íslendinga að hefja viðræður um allt að helming samningskaflanna fyrir árslok, þar á meðal samningskaflann um sjávarútveg og landbúnað. Þeir ræddu einnig önnur efnisatriði og fyrirkomulag aðildarviðræðnanna.

Á fundi Össurar með Mariu Damanaki ræddu þau endurskoðun sjávarútvegsstefnu ESB, samningaviðræðurnar fram undan og stöðuna í makrílviðræðum Íslendinga, Norðmanna, Færeyinga og Evrópusambandsins.

Loks kynnti Össur efnahagsáætlun Íslands fyrir Olli Rehn, en Rehn gerði grein fyrir aðgerðum ESB til að tryggja efnahagsstöðugleika á evrusvæðinu og breytingum á fjármálaregluverki ESB.

Á ríkjaráðstefnu ESB og Íslands á mánudaginn var samningaviðræðum um aðild Íslands að ESB hrundið úr vör með opnun fjögurra fyrstu samningskaflanna.

- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×