Viðskipti innlent

Fjárfest fyrir sex milljarða í sprotafyrirtækjum

Sæunn Gísladóttir skrifar
Stærsta fjárfestingin var fjögurra milljarða fjárfesting leidd af framtakssjóðnum NEA í tölvuleikjaframleiðandanum CCP.
Stærsta fjárfestingin var fjögurra milljarða fjárfesting leidd af framtakssjóðnum NEA í tölvuleikjaframleiðandanum CCP. mynd/CCP
Á síðasta ársfjórðungi árið 2015 var fjárfest í íslenskum sprotafyrirtækjum fyrir sem nemur sex milljörðum króna. Þetta kemur fram í samantekt fréttavefsins Norðurskautsins. Níu fjárfestingar voru á fjórðungnum.

Stærsta fjárfestingin var fjögurra milljarða fjárfesting leidd af framtakssjóðnum NEA í tölvuleikjaframleiðandanum CCP.

Meðalfjárfesting í sprotafyrirtæki sem fjármagnaði sig í fyrsta sinn nam 175 milljónum en meðalfjárfesting í lengra komnum fyrirtækjum nam 253 milljónum króna.

Á eftir CCP var stærsta fjárfestingin í Arctic Trucks, svo ARK Technology og Sólfari.

Flestar fjárfestingar voru í gegnum íslenska sjóði, hins vegar kom stærsti hluti fjárhæðarinnar, eða um 80 prósent, frá útlöndum sökum fjárfestingar NEA. Fram kemur í fjárfestingunni að íslensku sjóðirnir Brunnur, Frumtak 2, Eyrir Sprotar og Nýsköpunarsjóður voru virkir á ársfjórðungnum.

Fréttablaðið greindi frá því á síðasta ári að árið 2015 voru þrír nýir vaxtarsjóðir stofnaðir, Eyrir Sprotar, Frumtak 2 og Brunnur. Heildarfjárfestingargeta þeirra nemur 11 milljörðum.

Nýsköpunarfyrirtækjum stendur því til boða mun meira fjármagn hérlendis en var fyrir fáeinum misserum. Nú þegar hefur Eyrir fjárfest í átta fyrirtækjum, Frumtak í fjórum fyrir milljarð, og Brunnur er byrjaður að fjárfesta. Til stendur að fjölga fjárfestingum sjóðanna á nýju ári.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×