Íslenski boltinn

Gary Martin: Óli Jóh stakk mig í bakið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gary Martin, leikmaður ÍBV, tryggði sér gullskó Adidas með því að skora tvö mörk í tapi fyrir Stjörnunni, 3-2, í lokaumferð Pepsi Max-deildar karla í gær.

Gary veitti gullskónum viðtöku í lokaþætti Pepsi Max-markanna á Stöð 2 Sport í gær. Þar ræddi hann um nýliðið tímabilið sem var skrautlegt í meira lagi.

Enski markahrókurinn byrjaði hjá Val en var látinn fara þaðan eftir aðeins þrjá deildarleiki og einn bikarleik. Gary gekk svo í raðir botnliðs ÍBV þar sem hann skoraði grimmt. Það dugði þó ekki til að halda Eyjamönnum í Pepsi Max-deildinni.

„Ég ætlaði að taka mér frí út tímabilið eftir að ég fór frá Val. Allar hinar áskorarirnar sem mér buðust, eins og hjá HK og KA, voru ekki þær bestu fyrir mig. ÍBV var á botninum. Ég ætla ekki að segja að hafi ekki haft neinu að tapa. Ég hefði getað farið þangað og skorað ekki neitt. Þetta var erfiðasta liðið til að spila fyrir. Þetta var sennilega besta ákvörðun sem ég hef tekið í fótboltanum,“ sagði Gary í Pepsi Max-mörkunum í gær.

Hann baunaði á Ólaf Jóhannesson, fráfarandi þjálfara Vals.

„Valur stakk mig ekki í bakið. Óli Jóh stakk mig í bakið. Svo einfalt er það. Valur er frábært félag en Óli Jóh tók þessa ákvörðun. Og svona fór það,“ sagði Gary og leit á gullskóinn. Síðdegis í gær var greint frá því Ólafur fengi ekki nýjan samning hjá Val.

„Þeir þurftu eitt stig út úr síðustu tveimur leikjunum til að sleppa við fall en ég fékk gullskóinn. Ég er sigurvegarinn,“ sagði Gary.

Innslagið má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×