Erlent

Telja ógerning að virða tveggja metra reglu á flugvöllum

Kjartan Kjartansson skrifar
Farþegar gætu þurft að gangast undir hitamælingu og ganga með grímu þegar slakað verður á takmörkunum á ferðalögum vegna kórónuveirufaraldursins.
Farþegar gætu þurft að gangast undir hitamælingu og ganga með grímu þegar slakað verður á takmörkunum á ferðalögum vegna kórónuveirufaraldursins. Vísir/EPA

Forstjóri Heathrow-flugvallar telur „líkamlega ómögulegt“ að virða reglur um félagsforðun á flugvöllum. Flugvellir þurfi að grípa til skimana og farþegar þurfi að ganga með grímur þegar flugsamgöngur færast aftur í aukana.

Félagsforðun, þar sem fólki er ráðlagt að halda tveggja metra fjarlægð í næsta mann, er á meðal lykilaðgerða sem stjórnvöld um allan heim hafa skipað fyrir um til þess að hefta útbreiðslu kórónuveirufaraldursins.

Talsmenn verkalýðsfélags flugvallarstarfsmanna á Heathrow segja að gæta þurfi að félagsforðun á flugvellinum til að tryggja öryggi starfsfólks og farþegar. Þrír flugvallarstarfsmenn hafa þegar látið lífið vegna Covid-19, sjúkdómsins sem nýtt afbrigði kórónuveiru veldur, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

Það segir John Holland-Kaye, forstjóri flugvallarins, ómögulegt.

„Félagsforðun virkar ekki á neinn hátt í almenningssamgöngum, hvað þá í flugi. Það er bara líkamlega ómögulegt að halda félagsforðun á milli nokkurs fjölda farþega á flugvelli,“ segir hann.

Þegar farþegaflug getur hafist aftur verði helsta vandamálið ekki hversu margir farþegar komast fyrir í flugvél heldur hversu mörgum sé hægt að koma í gegnum flugvellina á öruggan hátt. Þar til bóluefni kemur til sögunnar verði flugvellir að grípa til aðgerða til að takmarka hættu á smiti.

„Þar á meðal gæti verið einhvers konar heilbrigðisskimun þegar fólk kemur á flugvöllinn þannig að ef þú ert með háan hita færðu kannski ekki að fljúga. Þegar þú ferð um flugvöllinn verður fólk líklega með andlitsmaska eins og fólk frá Asíu hefur gert frá því að Sars-veiran blossaði upp,“ segir Holland-Kaye.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×