Enski boltinn

Gylfi í dótabúð með krökkunum í Swansea í tilefni af jólunum | Myndband

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sextíu heppnir krakkar í Swansea fengu ekki aðeins að velja sér eina eða tvær jólagjafir í dótabúðinni Smyths að tilefni jólahátíðarinnar heldur hittu krakkarnir líka stjörnur Swansea-liðsins.

Swansea-leikmennirnir Gylfi Þór Sigurðsson, Leroy Fer, Nathan Dyer, Neil Taylor, Wayne Routledge og Kyle Naughton létu sér ekki vanta og hjálpuðu krökkunum að velja sér dót.

Auk þess gáfu Gylfi og félagar sér góðan tíma fyrir myndatöku, að skrifa eiginhandaráritanir og að tala aðeins við krakkana. Eiga þeir allir mikinn heiður skilinn fyrir að vera tilbúnir að gefa bæði tíma og pening fyrir svona dýrmætt samfélagsverkefni.

Leikmenn Swansea mættu síðan með krökkunum á kassann og borguðu fyrir gjafirnar þeirra.

Neil Taylor, leikmaður Swansea, skipulagði verkefnið en krakkarnir sextíu sem fengu að koma eru allt krakkar sem eiga um sárt að binda. Það er því ljóst að þetta hefur verið sannkallaður ævintýradagur fyrir þau.

Swansea segir frá þessu skemmtilega framtaki Gylfa og félaga inn á heimasíðu sinni en þar má einnig finna myndband frá deginum sem er aðgengilegt hér fyrir neðan.   

Nú er bara að vona að karmað sé með leikmönnum Swansea í leikjum liðsins yfir hátíðirnar en þar þarf Swansea helst að fá öll sex stigin út úr tveimur heimaleikjum á móti West Ham og Bournemouth.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×