Innlent

Vilja veita konum byr undir báða vængi

Í júlí munu tvær vinkonur ferðast um hálendi Íslands á svifvængum í nafni UN Women á Íslandi til að hvetja landsmenn til að skrá sig sem styrktaraðila.

Þær Ása og Aníta ákváðu í Desember 2009 að selja eigur sínar, kveðja fjölskylduna og halda í ævintýraferð um heiminn með svifvængi á bakinu undir verkefnaheitinu the Flying Effect.

„Þá fannst okkur upplagt að koma heim og kanna Ísland aðeins betur, því að því hefur lítið verið sinnt, allavega miðhálendinu," segir Aníta Hafdís Björnsdóttir, svifvængjaflugmaður.

Með verkefninu vilja þær vekja athygli á UN Women og rétti kvenna um allan heim til frelsis með því að taka ákveðna áhættu sjálfar til að láta drauma sína rætast. „Slagorðið þeirra - Við viljum veita konum byr undir báða vængi - á rosalega vel við okkar vængi þannig að með því er ákveðin tenging komin og við viljum vekja athygli á og hvetja fólk til að skrá sig í systrafélagið hjá UN Women," segir Ása Rán Einarsdóttir, svifvængjaflugmaður.

En það er að mörgu að hyggja fyrir svona ferðalag. „Flugið verður kannski ekki aðalvandamálið, við kunnum það ágætlega," segir Aníta. „Við verðum með jeppa og það er spurning hvað við gerum ef það springur, hvernig við eigum að keyra yfir ár og hvaða mat við eigum að taka með okkur."

Hægt verður að fylgjast með ferðalaginu á heimasíðu verkefnisins en þær stöllur leggja af stað eftir helgi og ætla sér að svífa um hálendið næsta mánuðinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×