Enski boltinn

John Terry verður áfram fyrirliði Chelsea

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Villas-Boas á blaðamannafundi þar sem hann var tilkynntur sem nýr þjálfari Chelsea
Villas-Boas á blaðamannafundi þar sem hann var tilkynntur sem nýr þjálfari Chelsea Mynd/AP
André Villas-Boas hefur tilkynnt að John Terry muni áfram bera fyrirliðaband Chelsea. Villas-Boas varar þó við því að verði frammistaða hans ekki nógu góð geti hann misst sæti sitt í liðinu. Hann sé ekki eini leiðtoginn, heldur séu fjölmargir leiðtogar í leikmannahópnum.

Villas-Boas heldur áfram að leggja línurnar á Stamford Bridge en stutt er síðan Portúgalinn var kynntur til leiks sem nýr þjálfari Chelsea. Nú þegar hefur hann slegið af fyrirhugaðan æfingaleik í Hollandi og tilkynnt glænýtt og ferskt þjálfarateymi.

„Ég veit að flestir leikmennirnir í búningsklefanum líta á John sem leiðtoga og leikmann sem hvetur þá til dáða. Þannig að ef hann er í liðinu þá verður hann fyrirliði,“ sagði Villas-Boas við breska fjölmiðla.

Villas-Boas segir Terry stóran hluta af velgengni Chelsea undanfarin sex til sjö ár. Hann bendir þó á að fleiri leikmenn félagsins búi yfir leiðtogahæfileikum og nefnir Frank Lampard og Didier Drogba.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×