Nú er í gangi leikur Grindavíkur og Hauka í Dominos-deild karla í körfuknattleik. Í viðtali við Daníel Guðna Guðmundsson, þjálfara Grindavíkur, fyrir leik kom fram mikil óánægja vegna mistaka aganefndar KKÍ í aðdraganda leiksins.
Daníel sagði í viðtali við blaðamann Vísis að vegna mistaka agnefndar KKÍ væri Gerald Robinson í leikmannahópi Hauka í kvöld þrátt fyrir að hafa verið rekinn úr húsi í síðasta leik Hauka gegn KR.
Robinson var rekinn úr húsí í gegn KR fyrir brot á Matthíasi Erni Sigurðarsyni undir lok leiksins gegn KR. Ef leikmenn fá brottvísun eiga þeir að fara í leikbann í næsta leik á eftir. Robinson er hins vegar með leikheimild í kvöld og Grindvíkingar eru allt annað en sáttir.
„Það segir skýrt í lögum og reglugerðum hjá KKÍ hvernig aganefnd vinnur og ef leikmenn fá brottrekstur er það sjálfkrafa bann í næsta leik. Þetta er mjög sérstakt í hvaða sandkassa aganefndin er að vinna núna og þetta er ekki í fyrsta skipti í vetur sem þeir eru með allt niður um sig," sagði Daníel Guðni við Vísi nú fyrir leikinn í kvöld.
"Þeir segja að það hafi orðið mistök í dómsorði. Hann var áminntur en á svo að vera í banni í næsta leik gegn Fjölni. Maður var búinn að undirbúa það þannig að sækja á þá þar sem Gerald væri ekki með. En við fengum að vita í dag að hann myndi spila og við þurfum að gíra okkur í það."
Leikurinn er nýhafinn í Mustad-höllinni og hægt er að fylgjast með beinni textalýsingu með því að smella hér.
Daníel Guðni ósáttur með aganefnd KKÍ: Ekki í fyrsta sinn í vetur sem þeir eru með allt niður um sig
