Innlent

Fyrrverandi ráðherra ósáttur við aðgerðaleysi Ögmundar

Fyrrum samgönguráðherra gagnrýndi Ögmund Jónasson innanríkisráðherra vegna stefnu hans í fjármögnun framkvæmda í samgöngumálum. Frummælendur á fundi SA kölluðu eftir samstilltu átaki.
Fyrrum samgönguráðherra gagnrýndi Ögmund Jónasson innanríkisráðherra vegna stefnu hans í fjármögnun framkvæmda í samgöngumálum. Frummælendur á fundi SA kölluðu eftir samstilltu átaki.
Frá Suðurlandsvegi Framkvæmdir standa yfir á kafla af Suðurlandsvegi, en háværar kröfur eru um að þær verði settar á fullt. Fréttablaðið/gva
Kristján Möller, þingmaður og fyrrum samgönguráðherra, deildi hart á eftirmann sinn og félaga í stjórnarliðinu, Ögmund Jónasson, á opnum fundi sem Samtök atvinnulífsins efndu til um fjárfestingar í samgöngumálum.

Kristján gagnrýndi meinta kyrrstöðu í samgönguframkvæmdum og einnig að samgönguáætlun fyrir næstu ár lægi ekki enn fyrir. Beindi Kristján meðal annars spurningu til aðstoðarmanns Ögmundar, sem var viðstaddur fundinn, um það af hverju áætlunin hafi ekki verið lögð fyrir vorþing.

„Þetta er mjög alvarlegt mál,“ sagði Kristján, „því að fjölmörg ríkisverkefni eru tilbúin og hægt væri að bjóða þau út á morgun.“

Kristján minntist einnig á umræðu um fjármögnun framkvæmda með veggjöldum. Þótti honum sem hún hafi mótast af misskilningi og rangtúlkunum. Ekki hafi staðið til, frá hans hálfu, að veggjöld yrðu lögð ofan á aðrar álögur á vegfarendur.

Hann minnti á að nýleg lög um samgönguframkvæmdir, þar sem meðal annars er kveðið á um heimild til að innheimta veggjöld, hafi verið samþykkt með miklum meirihluta. Það virtist honum nú hafa verið slegið út af borðinu.

„Ég harma mjög að þessum áformum hafi ekki verið fylgt betur eftir af eftirmanni mínum, en raun ber vitni,“ sagði Kristján og bætti því við að í nýlegri grein Ögmundar í Fréttablaðinu mætti lesa skilaboð um að ekkert yrði gert í þessum stórframkvæmdum.

Að mati Kristjáns eru hagvöxtur og framkvæmdir það sem þarf til að komast út úr kreppunni. Hluti lausnarinnar lægi í því að fá alla hagsmunaaðila, sveitarfélög og fleiri, saman til að mynda sátt um tekjukerfi til framtíðar.

Aðrir frummælendur á fundinum voru Orri Hauksson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, og Þorvarður Hjaltason, framkvæmdastjóri Sambands sunnlenskra sveitarfélaga.

Orri sagði að þó skiljanlega sé fjárhagsstaða hins opinbera slæm, sé það ekki afsökun fyrir því að hafna tækifærum til framkvæmda sem fjármögnuð séu með öðrum hætti en áður hafi verið gert.

„Við þurfum að fjárfesta í arðbærum verkefnum sem auka hagvöxt. Samgöngumannvirki eru aðgengileg, markviss og framkvæmanleg og því þarf ekki mikið til að koma þeim í gang.“

Loks lagði Þorvarður til að mörkuð yrði tólf ára stefna um 120 milljarða stórframkvæmdir í samgöngumálum, sem fjármagnaðar yrðu með láni frá lífeyrissjóðunum. Þessi áform þyrftu að hefjast sem fyrst með samstilltu átaki allra þeirra sem eiga aðild að málinu.

thorgils@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×