Enski boltinn

Gylfi og félagar spila upp á framtíð stjórans síns í næstu tveimur leikjum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Bob Bradley, knattspyrnustjóri Swansea, hefur enn ekki ná að breyta almennilega gengi liðsins þrátt fyrir að hafa verið í starfinu síðan í byrjun október.

Swansea hefur enn ekki unnið á útivelli undir hans stjórn og situr ennþá í fallsæti eftir hvert stórtapið á fætur öðru á útivelli.

Liðinu gengur betur á heimavelli sínum, Liberty leikvanginum, og ekki síst þökk sé framlags Gylfa Þórs Sigurðssonar sem er með 2 mörk og 2 stoðsendingar í síðustu tveimur heimaleikjum. Þessir tveir heimaleikir á móti Crystal Palace og Sunderland eru einu sigurleikir liðsins undir stjórn Bob Bradley.

Swansea spilar tvo leiki yfir hátíðirnar og þeir eru báðir á Liberty-leikvanginum. Liðið mætir fyrst West Ham á öðrum degi jóla og svo spila þeir við Bournemouth á nýársdag.

Bob Bradley var spurður af því á blaðamannafundi hvort framtíð hann gæti ráðist á úrslitum þessara tveggja leikja. „Kannski. Ég veit ekki hvernig þetta gengur fyrir sig og ég eyði ekki miklum tíma heldur í að hugsa um það,“ sagði Bob Bradley.

„Ég hef sagt það áður að ég vissi alltaf að þetta væri krefjandi verkefnið. Fótboltinn er bara þannig,“ sagði Bradley sem er fyrsti bandaríski knattspyrnustjórinn í ensku úrvalsdeildinni.

„Ég hef verið hér í tíu leiki. Við náðum nokkrum mómentum á þessum tíma þar sem við héldum að við værum að taka skref fram á við. Við skildum hinsvegar fullt af stigum eftir í þessum leikjum,“ sagði Bradley.

Bradley tók undir þá gagnrýni á leikmenn Swansea að þeir hafi ekki verið nógu harðir af sér."Það koma tímar þar sem við þurfum að sýna meiri stöðugleika,“ sagði Bob Bradley.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×