Innlent

Segir Gunnar hafa tapað mannorði sínu á einni nóttu

Stefán Ó. Jónsson skrifar
VISIR/GVA
Lögmaður Gunnars Þorsteinssonar, Einar Hugi Bjarnason, taldi þau ummæli sem fjallað er um í meiðyrða máli Gunnars gegn Vefpressunni hafi fengið útbreiðslu sem áður sé óþekkt í íslenskri réttarsögu.

Hann grunar að Pressan hafi verið með fjölda blaðamanna í vinnu allan sólarhringinn að skrifa fréttir af atferli Gunnars sem að lokum rataði á dagskrá annarra miðla.

Fáir Íslendingar sem komnir voru til vits og ára fóru varhluta af fréttum úr Krossinum á þessu tímabili sagði Einar og hafi þau haft alvarleg áhrif á sálarlíf Gunnars. „Umfjöllunin lagði líf stefnanda nánast í rúst,“ eins og hann komst að orði.



„Ummælin sem hér um ræðir fela ekki í sér gildismat,“ að mati lögmanns Gunnars.  Hann ítrekaði að ósannað er að Gunnar hafi framið þau brot sem honum eru gefin að sök. Hann benti á að lögreglan hafi rannsakað mál kvennanna þegar þau komu upp á sínum tíma.



Niðurstaða rannsóknarinnar liggur fyrir dómnum sem Einar vísaði í í ræðu sinni. Rannsókn málanna var hætt því ekki hafi þótt grund­völl­ur fyr­ir frek­ari rann­sókn og hún því látin niður falla.



Undirstrikaði lögmaðurinn að þessi málaferli væru ekki sakamál, heldur einkamál. „Enda er hér enginn verjandi,“ bætti hann við og benti því næst á óflekkað sakavottorð Gunnars Þorsteinssonar, heilindum Gunnars til stuðnings.

Sagði Einar með miklum þunga að meint brot Gunnars væru ósönnuð og því væru þau ummæli sem væru til umfjöllunar í dómsmáli þessu; „skólabókardæmi um ærumeiðandi ummæli.“

Lögmaðurinn benti á að sérstaklega hafi verið skorað á stefndu að leiða fyrir dóminn þær  sextán konur sem gáfu Gunnari að sök að hafa brotið á sér sem stefndu höfðu ekki orðið við. Taldi Einar það til vitnis um að enginn fótur sér fyrir þessum ummælum, hvað þá ásökunum, sem bornar séu á Gunnar.

Lögmaður Gunnars telur hann hafa tapað mannorði sínu á einni nóttu,  „Þann 23. nóvember 2010,“ sagði hann og endurtók sig er hann ítrekaði að umfjallanir þessar hafi lagt „líf Gunnars í rúst“.

Einar Hugi lauk máli sínu með því að spyrja viðstadda hvort þeim þætti í lagi að „fjölmiðlar taki upp og fullyrði í fyrirsögnum um refsiverða háttsemi án þess að fram hafi komið kæra eða menn verið til rannsóknar?“ Að mati hans væri svarið skýrt: „Nei“. Því skyldi umfjöllunin af meintum kynferðisbrotum dæmd ómerk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×