Xanana Gusmao, fyrrverandi forseti Austur-Tímor, verður nýr forsætisráðherra landsins. Jose Ramos-Horta, forseti, hefur falið flokkabandalagi undir forystu Gusmaos að mynda nýja ríkisstjórn. Enginn einn flokkur fékk hreinan meirihluta á þingi í kosningum fyrir rúmum mánuði.
CNRT flokkur Gusmaos myndaði bandalag með öðrum flokkum á þingi skömmu eftir að úrslit lágu fyrir. Fretilin-flokkurinn, sem áður var við völd, gerði einnig kröfu um að fá að mynda nýja stjórn en var ekki falið umboð til þess.