Innlent

Segir hækkunina langt frá því að vera næga kjarabót fyrir stúdenta

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Flóttafólk mun öðlast rétt á námslánum hjá LÍN samkvæmt nýjum úthlutunarreglum sjóðsins. Þá verður framfærslugrunnur námsmanna innanlands hækkaður í 96% en fulltrúi stúdenta í stjórn lánasjóðsins segir hækkunina vera langt frá því að vera næga kjarabót fyrir stúdenta.

Sjá einnig: Framfærslugrunnur LÍN hækkar og flóttafólk öðlast rétt á námslánum

Menntamálaráðuneytið birti nýjar úthlutunarreglur Lánasjóðs íslenskra námsmanna fyrir námsárið 2018-2019 í dag. Með breytingunum eiga einstaklingar sem njóta alþjóðlegrar verndar eða hafa dvalarleyfi á Íslandi vegna mannúðarsjónarmiða, nú rétt á námslánum hjá LÍN. Er það þeim skilyrðum háð aðviðkomandi sé kominn til landsins og að staðfesting Útlendingastofnunar á réttarstöðu þeirra eða dvalarleyfi liggi fyrir.

Ekki eins mikil kjarabót og óskað var eftir

Þá hækkar framfærslugrunnur námsmanna innanlands úr 92% af reiknaðri framfærslu í 96%. Þannig er ráðgert að ráðstöfunartekjur námsmanna standi aðeins undir 4% af reiknaðri framfærsluþörf þeirra á námstímanum í stað 8% áður að því er fram kemur í tilkynningu frá ráðuneytinu. Ragnar Auðun Árnason situr í Stjórn LÍN sem fulltrúi Stúdentaráðs Háskóla Íslands.

„Það er náttúrlega mjög gott að það sé verið að breyta námslánunum eitthvað en þetta er ekki eins mikil kjarabót og við hefðum óskað okkur, við fulltrúar stúdenta í stjórn LÍN sem og bara stúdentahreyfingarnar yfir höfuð. Og þó svo það sé verið að hækka framfærslugrunninn um 4% þá er það ekki almennileg kjarabót fyrir stúdenta,“ segir Ragnar.

Fagnar því er snýr að flóttafólki

Stúdentar vilji að framfærslugrunnurinn verði hækkaður í 100% auk þess sem hann gerir athugasemd við að frítekjumarkið hafi haldist óbreytt í 930.000 krónum í nokkur ár, á sama tíma og laun hafi hækkað í landinu.

Ragnar fagnar þó þeim breytingum er snúa að veitingu námslána til flóttafólks en sú breyting sé meðal þeirra umbóta á lánasjóðskerfinu sem stúdentar hafi kallað eftir. „Við ræddum það að þetta ætti að vera möguleiki fyrir flóttafólk sem kemur til landsins og á erfitt með að fóta sig í samfélaginu að þá gæti LÍN verið einn kostur fyrir þau en þetta er náttúrlega bara eitt af mörgu sem að við höfum bent á að væri hægt að breyta í úthlutunarreglum,“ segir Ragnar.

 

Mikilvægt og jákvætt skref

LÍS – Landssamtök íslenskra stúdenta fagnar því jafnframt að með nýjum úthlutunarreglum öðlist flóttafólk rétt á námslánum hjá LÍN. „Þetta er mjög mikilvægt og jákvætt skref í átt að því að gæta þess að aðgengi þeirra að háskólanámi sé tryggt,” segir í tilkynningu frá samtökunum.

Þá sé einnig skref í rétta átt að framfærslan hækki úr 92% í 96% af reiknaðri framfærsluþörf. 

„Þó hafa LÍS talað fyrir því að hún sé hækkuð í að minnsta kosti 100% enda ekki ásættanlegt að stúdentar standi undir reiknaðri framfærsluþörf. Þá krefjast LÍS einnig að markvisst sé unnið að því að hækka framfærslu í samræmi við framfærslu annarra samfélagshópa eða lágmarkslaun,” segir ennfremur. Samtökin koma til með að rýna betur í nýjar úthlutunarreglur og má vænta ýtarlegrar umsagnar í dag eða fyrramálið.”


Tengdar fréttir

Leggja til skattaafslátt á móti afborgunum af námslánum

Lántakar hjá LÍN munu geta nýtt sér sérstakan skattaafslátt fyrir að greiða af námslánum sínum verði nýtt frumvarp Viðreisnar að veruleika. Aðalflutningsmaður frumvarpsins segir markmiðið að auka heimtur hjá lánasjóðnum og bæta stöðu þeirra sem sækja sér langt háskólanám.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×