Erlent

Nýtt myndband af „frumbyggjanum í holunni“

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Í myndbandinu sést maðurinn höggva tré með öxi.
Í myndbandinu sést maðurinn höggva tré með öxi. Skjáskot
Brasilísk stjórnvöld hafa sent frá sér nýtt myndband af frumbyggja sem talið er að hafi búið einn í Amasón-regnskógunum í meira en 22 ár.

Í myndbandinu, sem sjá má hér að neðan, sést maðurinn reyna að fella tré með öxi. Talið er að maðurinn sé á sextugsaldri og við hestaheilsu. Fram kemur í frétt Guardian að hann veiði sér grísi, fugla og apa til matar með boga og örvum ásamt því að rækta maís og papaya. Aldrei áður hefur náðst jafn góð myndbandsupptaka af manninum, að sögn talsmanns brasilísku frumbyggjastofnunarinnar.

Maðurinn er þekktur sem „frumbygginn í holunni“ og talið er að hann sé síðasti meðlimur ættbálks síns. Viðurnefnið er dregið af holum sem ættbálkur hans gróf og er maðurinn talinn vera með eina slíka holu undir hengirúminu sínu.

Ættbálkur mannsins var stráfelldur á 8. og 9. áratug síðustu aldar þegar bændur og skógarhöggsmenn gengu harkaklega fram gegn íbúum Amasón-regnskóganna. Frumbyggjastofnunin hefur fylgst með ferðum mannsins frá árinu 1996 og birtist fyrst myndskeið af honum tveimur árum síðar.

Stofnunin hefur komið upp gríðarstóru friðlandi í regnskógunum þar sem frumbyggjar og dýralíf er látið óáreitt. Starfsmenn stofnunarinnar hafa þó reynt að auðvelda manninum lífið með því að skilja eftir axir, sveðjur og fræ á víð og dreif í friðlandinu. Talsmaður stofnunarinnar segir þó að nokkuð augljóst sé að maðurinn vilji ekkert með nútímasamfélag mannsins að gera. Það sé skiljanlegt í ljósi kynna hans af manninum sem slátruðu ættbálknum hans.

Hér að neðan má sjá myndbandsbrot Guardian af skógarhöggi mannsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×