Skoðun

Öryrkjar borga mun meira en áður

Þuríður Harpa Sigurðardóttir og Emil Thoroddsen skrifar
Sumt er gott. Annað bara alls ekki. Þetta er í stuttu máli reynslan af nýju greiðsluþátttökukerfi í heilbrigðisþjónustu sem tók gildi fyrir rúmu ári.

Sjúkratryggingar Íslands birtu nýlega skýrslu yfir þetta fyrsta ár. Þar er bent á ýmislegt jákvætt. Til dæmis forvarnir. Sjúkra-, iðju- og talþjálfun eru nú hluti kerfisins. Þetta eru mikilvægir þættir sem margir hafa þurft að neita sér um vegna kostnaðar. En það er að fleiru að hyggja.

Núverandi og fyrrverandi heilbrigðisráðherra (sá sem var í embætti þegar kerfið var mótað) hafa nýverið mært nýja kerfið og einblínt á kostina. Næstu skref verði að lækka greiðsluþátttöku sjúklinga enn frekar. Enginn mælir á móti því. Það er bæði brýnt og mikilvægt að draga úr kostnaði fólks við heilbrigðisþjónustu.

Yfirlýst markmið með nýja kerfinu voru og eru að létta kostnaði af þeim sem mest þurftu að borga: Örorku- og ellilífeyrisþegum. Reynslan sýnir aftur á móti að almennir notendur hafa haft áberandi mestan hag af kerfinu. Það er gott svo langt sem það nær, en þetta má ekki bitna á öðrum. Það er sá veruleiki sem nú blasir við eftir rúmt ár í nýju kerfi.

Óviðráðanleg upphafsgreiðsla

Kerfið er byggt upp með hámarksgreiðslu í fyrsta mánuði nýs tímabils. Síðan lækka greiðslurnar. Þessi fyrsta greiðsla er óviðráðanleg fyrir fjölda fólks sem hefur lítið sem ekkert milli handanna. Þannig er í kerfinu lagður stór steinn í götu efnaminna fólks. 

Emil Thoroddsen formaður málaefnahóps ÖBÍ um heilbrigðismál
Fólks sem jafnframt berst í bökkum með lágan lífeyri og stórkostlega óréttlátar skerðingar á öllum öðrum tekjum.

Áður var það svo að lífeyrisþegar greiddu hlutfallslega aldrei meira en um helming almennra notendagjalda í heilbrigðiskerfinu, stundum minna. Staðan er verri í nýja kerfinu. Nú verða lífeyrisþegar að greiða hlutfallslega mun meira, eða 2/3, þvert gegn yfirlýstum markmiðum. Hér erum við að horfa upp á afleiðingar póli­tískra ákvarðana í verki. Hvað skýrir þennan hrópandi mun á orðum og gjörðum stjórnmálamanna?

Á þetta var bent áður en nýja kerfið tók gildi. Fyrir því voru færð skýr rök og þeim komið rækilega á framfæri, að kostnaðarþátttaka lífeyrisþega ætti ekki að fara yfir þriðjung af almennum notendagjöldunum.

Kerfið er fyrir fólk

Öryrkjabandalag Íslands hvetur stjórnvöld til þess að vinna í samræmi við markmiðin. Það verður að grípa til aðgerða strax. Það þarf að koma greiðsluhlutfallinu niður í þriðjung og lækka óviðráðanlegar greiðslur í upphafi tímabils. Þess fyrir utan eru þökin of há.

Þetta snýst um fólkið sem minnst hefur milli handanna og þarf mest á þjónustunni að halda. Það þarf að laga þessa vitleysu. Getum við ekki öll verið sammála um það?

Höfundar:

Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalags Íslands

Emil Thoroddsen, formaður málaefnahóps ÖBÍ um heilbrigðismál




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×