Innlent

Viðskiptaráðherra beitir sér ekki

Viðskiptaráðherra ætlar ekki að beita sér fyrir því að Fjármálaeftirlitið skoði lagalega stöðu þeirra fjármálafyrirtækja þar sem fyrrverandi stjórnendur olíufélaganna sitja í stjórn. Forstjóri Fjármálaeftirlitsins vill ekkert tjá sig um hvort eftirlitið ætli að grípa til aðgerða, eins og því er heimilt að gera lögum samkvæmt. Lög um fjármálafyrirtæki kveða skýrt á um að stjórnarmenn fjármálafyrirtækja megi ekki hafa sýnt af sér háttsemi sem gefi tilefni til að ætla að þeir misnoti aðstöðu sína eða skaði fyrirtækið. Háttsemi fyrrverandi stjórnenda olíufélaganna er harðlega fordæmd í olíuskýrslu Samkeppnissofnunar. Tveir þeirra, Kristinn Björnsson, sem var forstjóri Skeljungs, og Einar Benediktsson, sem var forstjóri Olís, sitja nú í stjórnum fjármálafyrirtækja; Kristinn er stjórnarformaður Straums og Einar situr í stjórn Landsbankans. Af fyrri verkum hljóta að vakna spurningar um hvort tilefni sé til að ætla að þeir misnoti aðstöðu sína öðru sinni og skaði því þessi fyrirtæki. Fjármáleftirlitið getur lögum samkvæmt afturkallað starfsleyfi þessara fjármálafyrirtækja á grundvelli ofangreinds ákvæðis. Páll Gunnar Pálssson, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, vill ekkert tjá sig um málið en bendir þó á að eftirlitið hafi frumkvæðisskyldum að gegna. Aðspurð hvort hún ætli að beita sér fyrir því að Fjármálaeftirlitið skoði þetta mál segir Valgerður Sverrisdóttir viðskiptaráðherra ekki hafa afskipti af störfum eftirlitsins, frekar en störfum Samkeppnisstofnunar. Þetta séu sjálfstæðar eftirlitsstofnanir sem taki sjálfar ákvarðanir um forgangsröðun og þess háttar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×