Máli skipuleggjanda tónlistarhátíðarinnar Iceland to Poland gegn hljómsveitinni Hatara var vísað frá í Landsrétti í dag. Landsréttur staðfesti þar með úrskurð héraðsdóms.
Wiktoria Joanna Ginter, aðalskipuleggjandi Iceland to Poland, stefndi Hatara til heimtu skaðabóta vegna meintra vanefnda á samningi um að sveitin kæmi fram á hátíðinni, sem fara átti fram í Póllandi dagana 20.-24. ágúst 2019.
Sjá einnig: Stefnir Hatara fyrir samningsbrot
Landsréttur komst að þeirri niðurstöðu að í samningnum sem Iceland to Poland gerði við Svikamyllu ehf., fyrirtækið sem heldur utan um rekstur Hatara, sé skýrt kveðið á um að aðilum samningsins beri skylda til að leggja ágreining um hann undir gerðardóm.
Wiktoria hafi ekki „með haldbærum rökum sýnt fram á heimild sína til að víkjast undan þeirri samningsbundnu skyldu að sæta lögsögu áðurnefnds gerðardóms.“ Málinu var þannig vísað frá og Wiktoriu gert að greiða Svikamyllu 280 þúsund krónur í kærumálskostnað.
Í viðtali við Vísi í ágúst í fyrra sagði Wiktoria farir sínar ekki sléttar eftir að hún reyndi að bóka Hatara á hátíðina. Þá kvaðst hún hafa fengið taugaáfall vegna málsins og lýsti afar neikvæðum viðbrögðum í garð skipuleggjenda hátíðarinnar frá aðdáendum sveitarinnar.
Hatari sagði á sínum tíma í yfirlýsingu vegna málsins að sveitin hefði ekki séð fram á að fá greitt fyrir þátttöku sína á hátíðinni. Því hefði verið ákveðið að hætta við að koma fram.
Iceland to Poland er tónlistarhátíð sem gengur út á ferðast með íslenska tónlistarmenn eða sveitir milli nokkurra pólskra borga og kynna þannig íslensku tónlistarsenuna fyrir pólskum tónlistarunnendum. Hátíðin fór fram í ágúst síðastliðnum en aflýsa þurfti hátíðahöldum á lokakvöldinu vegna skipulagsvanda, að því er fram kom í tilkynningu frá skipuleggjendum á sínum tíma.