Erlent

Attenborough segir komið að ögurstundu fyrir loftslagsaðgerðir

Kjartan Kjartansson skrifar
Attenborough, sem er 93 ára gamall, er dáður um allan heim fyrir fjölda náttúrulífsþátta sem hann hefur kynnt um áratugaskeið.
Attenborough, sem er 93 ára gamall, er dáður um allan heim fyrir fjölda náttúrulífsþátta sem hann hefur kynnt um áratugaskeið. Vísir/EPA

Breski náttúrufræðingurinn og dagskrárgerðarmaðurinn David Attenborough segir að þjóðir heims hafi dregið lappirnar of lengi í að bregðast við loftslagsbreytingum af völdum manna og að „komið sé að ögurstundu“. Því lengur sem beðið sé með aðgerðir, þeim mun erfiðara verði að ná árangri.

Í viðtali við breska ríkisútvarpið BBC segir Attenborough að það sé „augljós þvæla“ að sumir stjórnmálamenn og álitsgjafar haldi því fram að gróðureldar sem hafa geisað í Ástralíu tengist ekki hlýnandi loftslagi jarðar.

„Í þessum töluðu orðum brennur Suðaustur-Ástralía. Hvers vegna? Vegna þess að hitastig jarðar hækkar,“ segir Attenborough og bendir á að menn viti fullvell að athafnir manna valdi hnattrænni hlýnun.

Gagnrýnir hann að lítill árangur hafi orðið af viðræðum ríkja heim um aðgerðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda sem valda loftslagsbreytingum. Síðasti loftslagsfundur Sameinuðu þjóðanna sem fór fram í Madrid í desember þótti misheppnaður.

„Þetta er brýnt vandamál sem verður að leysa og það sem meira er, þá vitum við hvernig á að gera það. Það er það þversagnarkennda, að við neitum að stíga þau skref sem við vitum að verður að taka,“ segir náttúrufræðingurinn heimsþekkti.

Markmið Parísarsamkomulagsins í loftslagsmálum er að hnattrænni hlýnun verði haldið innan við 2°C fyrir lok aldarinnar og helst 1,5°C. Miðað við núverandi losun gæti hlýnun aftur á móti frekar náð 3°C eða meira. Vísindamenn vara við því að með áframhaldandi hlýnun verði skæðar hitabylgjur, þurrkar, úrhelli og veðuröfgar tíðari og að strandsvæði verði í vaxandi hættu vegna hækkandi yfirborðs sjávar.

„Hvert ár sem líður þýðir að erfiðara og erfiðara verður að ná þessum skrefum,“ segir Attenborough.


Tengdar fréttir

Heitustu tíu ár sögunnar

Síðustu tíu ár eru þau heitustu frá því að mælingar hófust. Af þeim árum eru átta af tíu heitustu árum sögunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×