Viðskipti erlent

Lánshæfismat Bandaríkjanna lækkað

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Efnahagslífið í Bandaríkjunum er róstursamt þessa dagana. Mynd/ AFP.
Efnahagslífið í Bandaríkjunum er róstursamt þessa dagana. Mynd/ AFP.
Matsfyrirtækið Standard & Poor's lækkaði lánshæfismat bandaríska ríkisins í gærkvöld. Matið var fært úr efsta þrepi, eða AAA í næstefsta þrep sem er AA+, með neikvæðum horfum. Þetta er í fyrsta skipti í sögunni sem lánshæfismat Bandaríkjanna er lækkað. Ástæðan er áhyggjur af hallarekstri Bandaríkjanna.

Standard & Poor's telur að fjárlögin sem Bandaríkjaþing samþykkti á þriðjudaginn gangi ekki nógu langt. Í nýju fjárlögunum var skuldaþak ríkisins hækkað.

Því er spáð að þetta nýja mat geti komið frekara róti á efnahagslífið í Bandaríkjunum. Traust á markaðnum muni minnka enda glímir ríkissjóður í Bandaríkjunum við miklar skuldir, atvinnuleysi upp á 9,1% og menn óttast mjög aðra kreppu í landinu.

S&P segir að líkur séu á að matið verði lækkað niður í AA innan næstu tveggja ára ef aðgerðir til að draga úr fjárlagahallanum verða metnar ófullnægjandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×