Innlent

Þéttriðið varnarnet á Atlantshafi

Guðjón Helgason skrifar

Samningarnir við Dani og Norðmenn um öryggis- og varnarmál er liður í að þróa þéttriðið varnarnet á Norður-Atlantshafi. Það þurfi eftir brotthvarf Bandaríkjamanna. Þetta segir ráðuneytisstjóri í utanríkisráðuneytinu. Nú sé samið við Breta og Kanadamenn og Þjóðverjar væntanlegir hingað til lands í næta mánuði að skoða aðstöðu.

Grétar Már Sigurðsson, ráðuneytisstjóri í utanríkisráðuneytinu var gestur í Hádegisviðtalinu á Stöð 2 í dag. Hann sagði það vegna brotthvarfs Bandaríkjahers sem farið hafi verið út í viðræður við Evrópuríki og Kanadamenn um varnir á Atlantshafi. Verið sé að semja um það sem Bandaríkjamenn hafi áður séð um. Ríkisstjórn Íslands hafi ákveðið að forsætis-, dómsmála- og utanríkisráðuneytin skipuðu starfshóp til að semja við nágrannaríki sem hefðu hag af vörnum á svæðinu. Þetta byggði á aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu og lykilsamningur um varnir Íslands yrði áfram varnarsamningurinn við Bandaríkjamenn bæði á friðar- og ófriðartímum.

Grétar Már segir það hafa legið beinast við að semja við Dani og Norðmenn. Verið sé að tala við Breta og Kanadamenn og 17. maí hefjist viðræður við Þjóðverja. Grétar Már segir kynningarfundi hafa verið haldna með Bretum og Kanadamönnum og vilji til samstarfs. Von sé á fulltrúum þessara ríkja á næstu vikum og mánuðum.

Grétar Már segir viðræðuferlið í gangi og ánægjulegt ef það tækist að flétta saman það sem þessar þjóðir séu að gera á Atlantshafinu og mynda öryggisnet. Þessar þjóðir vinni allar á Atlantshafinu og það næðust með þessu samlegðaráhrif. Grétar Már segir að unnið verði innan ramma Atlantshafsbandalagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×