Enski boltinn

Sunderland klófesti Wickham

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Wickham skallar boltann í leik með Ipswich.
Wickham skallar boltann í leik með Ipswich. Nordic Photos / AFP
Einn eftirsóttasti táningur Bretlandseyja, Connor Wickham, gekk í dag til liðs við Sunderland sem keypti hann fyrir 8,1 milljón punda frá Ipswich. Kaupverðið getur hækkað upp í tólf milljónir punda ef honum gengur vel hjá Sunderland.

Wickham er átján ára gamall og hefur verið orðaður við mörg önnur félög að undanförnu, til að mynda Liverpool. Wickham mun sjálfur hafa verið stuðningsmaður Liverpool í gegnum tíðina en Sunderland mætir einmitt Liverpool á Anfield í fyrstu umferð ensku úrvalsdeildarinnar í ágúst.

„Ég er mjög spenntur fyrir þessu. Sunderland er stórt félag þar sem allar aðstæður eru frábærar. Ég get ekki beðið eftir því að fá að hefja æfingar með liðinu,“ sagði Wickham í viðtali á heimasíðu félagsins.

Wickham lék sinn fyrsta leik með aðalliði Ipswich aðeins sextán ára gamall og varð þá yngsti leikmaður ensku B-deildarinnar frá upphafi. Hann var kjörinn besti ungi leikmaður deildarinnar á síðasta tímabili.

Hann er hávaxinn sóknarmaður og skoraði þrettán mörk í alls 65 leikjum með Ipswich á undanförnum tveimur tímabilum. Hann skoraði einnig sigurmark U-17 liðs Englands í úrslitaleik EM U-17 liða gegn Spáni í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×