Joe Biden, forsetaframbjóðandi í forvali Demókrataflokksins fyrir forsetakosningarnar í nóvember og fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna, vann stórsigur í forvali flokksins í Suður-Karólínuríki í nótt. Biden hlaut 48,4 prósent atkvæða, en næstur kom öldungadeildarþingmaðurinn Bernie Sanders með 19,9 prósent.
Með sigrinum tókst Biden að þrengja bilið milli sín og Sanders, en sá síðarnefndi leiðir nú kapphlaup Demókrata ef litið er til kjörmannsígilda. Í nótt fékk Biden 31 kjörmann, en Sanders tíu. Að loknu forvalinu í Suður-Karólínu er Sanders því með 57 kjörmannsígildi, Biden 51, borgarstjórinn Pete Buttigieg 26, öldungadeildarþingkonan Elizabeth Warren 8, og öldungadeildarþingkonan Amy Kloubuchar 7. Aðrir frambjóðendur hafa ekki náð kjörmönnum.
Til þess að hljóta útnefningu Demókrataflokksins og verða forsetaefnið sem tekst á við Donald Trump, sitjandi forseta, í kosningunum í haust þarf frambjóðandi að tryggja sér hreinan meirihluta kjörmanna, nánar til tekið 1991 slíkan. Takist það ekki gæti farið svo að svokallaðir ofurkjörmenn (e. super delegates) komi sér saman um að velja einhvern annan en þann sem hlaut flest atkvæði frá almenningi í forvalinu.
Úrslit næturinnar þykja afar góð fyrir Biden, ekki síst í ljósi þess að næstkomandi þriðjudagur, eða Ofurþriðjudagurinn, er forvalsframbjóðendum afar mikilvægur, en þá fer fram forval í 14 ríkjum Bandaríkjanna. 1344 kjörmenn verða þá á boðstólum, eða 34 prósent af heildarfjölda kjörmanna í forvalinu. Úrslitin í Suður-Karólínu eru talin geta veitt Biden ákveðinn skriðþunga inn í þriðjudaginn.
Eftir úrslit næturinnar tilkynnti milljarðamæringurinn og viðskiptamaðurinn Tom Steyer um að hann ætlaði að draga sig út úr forvalinu, en honum hefur ekki enn tekist að ná kjörmanni á blað í þeim fjórum ríkjum þar sem forvalskosningar hafa farið fram. Hann var þriðji í forvalinu í Suður-Karólínu með rúm ellefu prósent atkvæða.
Erlent