Tónlist

Tók upp myndband í heimsókn til Íslands

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Unnur Eggertsdóttir kann vel við sig í New York, þar sem hún býr núna.
Unnur Eggertsdóttir kann vel við sig í New York, þar sem hún býr núna. Vísir/Vilhelm
„Við tókum upp myndbandið núna þegar ég kom heim, það er svo gott að klára þetta hér heima því hér á maður svo auðveldan aðgang að frábæru fólki,“ segir söngkonan og leiklistarneminn Unnur Eggertsdóttir.

Hún dvaldi hér á landi yfir jól og áramót og ákvað að nýta tímann til þess að taka upp tónlistarmyndband við nýtt lag.

Lagið ber titilinn Í nótt og vann hún það í samvinnu við upptökuteymið StopWaitGo. „Lagið var tekið upp fyrir svolitlu síðan og því kjörið að klára þetta núna.“ Ingimar Eydal tók myndbandið upp, Rakel Unnur Thorlacius stíliseraði og Ástrós Erla sá um hár og förðun.

Unnur, sem lék m.a. Sollu stirðu í Latabæ og tók þátt í undankeppni Eurovision 2013, stefnir þó ekki á að gefa út plötu á næstunni. „Plötuútgáfa er ekki á dagskrá svona í náinni framtíð. Ég vil einbeita mér hundrað prósent að náminu og sinna því eins vel og ég get. Það eru þó þvílík forréttindi að geta komið heim og hent út einu og einu lagi, þótt þau séu ekki endilega hluti af stærri listrænni mynd."

"Í augnablikinu finnst mér þetta skemmtilegast og þá vil ég gera bara akkúrat það. Svo seinna mun ég kannski vilja gefa út plötu í allt öðrum stíl og segja skilið við poppið. Það eru til svo margar sögur af leiklistarnemum sem hipsterast svo við námið að kannski á næsta ári mun ég gefa út vínylplötu á færeysku. Ég útiloka ekkert,“ segir Unnur og hlær. 

Hún er að læra leiklist við skólann The American Academy of Dramatic Arts í New York. „Ég dýrka New York,“ segir Unnur og bætir við: „Ég er mjög ánægð með námið. Þetta var sjúklega erfið önn en ég er búin að læra ótrúlega mikið.“

Hún hefur þó náð að njóta lífsins með náminu úti og kynntist frægri persónu. „Ég og Chantel Riley, stelpan sem leikur Nölu í Lion King á Broadway, erum orðnar fínar vinkonur. Ég kom samt varla upp orði þegar ég hitti hana fyrst, slefaði bara og muldraði að mér fyndist hún frábær. Næst á dagskrá er að drösla henni til Íslands,“ segir Unnur og hlær.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.