Hækkun fasteignamats er mjög misjafnt eftir hverfum á höfuðborgarsvæðinu. Nýtt fasteignamat fyrir næsta ár var kynnt á fimmtudag.
Þannig hækkar fasteignamat í Garðabæ um 13,8 prósent á næsta ári og í Fossvogi um 9,9 prósent, en um 7,2 prósent í Vesturbæ vestan Bræðraborgarstígs.
Mikil hækkun, eða tíu til ellefu prósenta, verður í Rima-, Engja-, Víkur- og Borgarhverfum í Grafarvogi, í Neðra-Breiðholti og í Setbergi í Hafnarfirði. Hækkunin verður minnst í Blesugróf, um 2,1 prósent, í Úlfarsárdal um 3,3 prósent og í Bústaðahverfi um 4,6 prósent. Í Leirvogstungu í Mosfellsbæ lækkar fasteignamatið á næsta ári um 5,4 prósent.
Þjóðskrá Íslands notar stuðla til þess að gera fasteignamatið. Þannig er stuðullinn fyrir sérbýli í Hvarfahverfi í Kópavogi einn, en í fjölbýli 0,99. Í syðri hluta Þingholta er stuðullinn á sérbýli hins vegar 1,64 og í fjölbýli 1,47. Þetta þýðir að sérbýli sem kostar 40 milljónir í Hvarfahverfi myndi kosta 65,6 milljónir ef það væri í Þingholtunum. Íbúð í fjölbýli sem í Hvörfum væri metin á 19,8 milljónir kostaði 29,4 milljónir í Þingholtunum, sem er dýrasta hverfið á höfuðborgarsvæðinu.- þeb
Þingholtin hæst metna hverfið
