Fótbolti

Hvetur United til að taka ákvörðun varðandi Pogba svo næsta tímabil verði ekki annar „sirkus“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Paul Pogba eftir leik með United.
Paul Pogba eftir leik með United. getty/Robbie Jay Barratt

Paul Ince, sem varð í tvígang enskur meistari, segir að Manchester United þurfi að gera upp við sig hvað þeir ætli að gera við Paul Pogba og segir mikinn mun á komu Pogba og Bruno Fernandes til félagsins.

Ince segir að með komu Bruno gæti United séð tækifæri í að fá sem mestan pening í sumar fyrir Pogba en hann verður samningslaus 2021. Mikið hefur verið rætt og ritað um framtíð hans innan félagsins.

„Þú getur borið hann saman við Bruno Fernandes sem kom til félagsins og lagði hart að sér á æfingasvæðinu og vann stuðningsmennina á sitt band. Pogba gerði það aldrei og frammistaða hans hefur verið óstöðug, til að segja sem minnst,“ sagði Ince.

„Þegar þú kostar þennan pening þá búast stuðningsmennirnir við því að þú stendur þig reglulega vel og sérstaklega þegar þú ert að spila fyrir Manchester United. Þar eru kröfurnar háar. Þetta er á vellinum, og svo einnig fyrir utan völlinn, með umboðsmann hans og framkomu, þá er þetta ekki gott fyrir félagið.“

„Ef Ole Gunnar ætlar að taka félagið áfram og koma með „United-leiðina“ aftur inn í félagið þá er Pogba ekki sá sem bregst við því. Hvernig hann hagar sér er ekki gott fyrir félagið. Ef þú vilt rétta hugarfarið og metnaðinn þá, fyrirgefðu, en þá hentar það ekki með Paul Pogba.“

„Ef Bruno hefði ekki komið inn og gert eins vel og hann gerði þá hefði Ole kannski haldið Pogba en núna gæti hann verið að hugsa um að láta Pogba fara fyrir réttan pening. Þeir þurfa að taka ákvörðun og bráðlega, því við getum ekki haft annað tímabil af Pogba sirkus. Hann kæmist ekki einu sinni í byrjunarliðið á þessum tímapunkti,“ sagði Ince.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×