Viðskipti erlent

Hrun Ericsson kostar sænsku konungsfjölskylduna 260 milljónir

Silvia og Karl Gústaf konungshjónin sænsku.
Silvia og Karl Gústaf konungshjónin sænsku. MYND/AFP

Verð á bréfum í Ericsson hefur fallið um 60 prósent á síðustu mánuðum og skert verulega eign konungsfjölskyldunnar í fyrirtækinu. Hlutabréf konungsins í Ericsson fóru stighækkandi þar til síðasta sumar þegar þau voru metin á tæpa tvo milljarða íslenskra króna.

Hluturinn er nú undir 11 krónum sænskum eða 143 íslenskum krónum og hefur konungurinn því tapað meira en 260 milljónum króna á hruni símafyrirtækisins segir í Expressen.

Haft er eftir Bengt Telland hagfræðingi konungsins í blaðinu að staðan sé sorgleg.

Börn konungsins hafa sömuleiðis tapað á fyrirtækinu, þó örlítið minna en Karl faðir þeirra, eða rúmlega fimm milljónum íslenskra króna.

Karl Gústaf á hluti í ellefu fyrirtækjum í sænsku kauphöllinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×