Körfubolti

Áhrifamikil saga NBA-stjörnu og viðbragða hans eftir að ófrísk eiginkona hans greindist með heilaæxli

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jrue Holiday og Lauren Holiday með dóttur sína Jrue Tyler Holiday sem er kölluð JT.
Jrue Holiday og Lauren Holiday með dóttur sína Jrue Tyler Holiday sem er kölluð JT. Getty/Cassy Athena

Jrue og Lauren Holiday segja dramatíska sögu sína í áhrifamiklu innslagi á ESPN en bæði eru þau afreksfólk í heimsklassa.

Jrue Holiday er í hópi bestu bakvarða NBA-deildarinnar og Lauren Holiday var fastamaður í besta knattspyrnulandsliði heims. Þau giftu sig árið 2013 en rúmum tveimur árum síðar lentu þau í miklu áfalli þegar þau áttu von á sínu fyrsta barni.

Jrue Holiday er stjörnuleikmaður í NBA-deildinni í körfubolta en hann tók sér frí frá körfuboltanum til að styðja við bak við eiginkonu sína sem fékk þær hræðilegu fréttir að greinast með heilaæxli þegar hún var komin nokkra mánuði á leið.



Lauren Holiday var sjálf mikil afrekskona en hún spilaði 133 landsleiki fyrir Bandaríkin og varð heimsmeistari og tvisvar sinnum Ólympíumeistari með liðinu. Hún lagði skóna á hilluna eftir heimsmeistaratitilinn 2015.

„Hún er með meira keppnisskap en ég,“ segir Jrue Holiday sem er á sínu ellefta tímabili í NBA-deildinni og hefur skorað 19,2 stig og gefið 6,8 stoðsendingar að meðaltali með New Orleans Pelicans á þessu tímabili.

„Hvað viltu gera? Viltu komast á Ólympíuleikanna eða vera kosinn besti leikmaður deildarinnar. Hann svaraði: Ég vil eignast fjölskyldu,“ segir Lauren Holiday að Jrue hafi sagt við sig þegar hún spurði hann út í framtíðina.

Í áhugaverðu og áhrifaríku innslagi á ESPN fara þau yfir samband sitt, gleðina við að verða ófrísk og stundina þegar hún frétti að hún væri kominn með heilaæxli í miðri meðgöngu.

Jrue Holiday vildi styðja við eiginkonu sína hundrað prósent og tók þá risastóra ákvörðun að hætta um tíma í NBA deildinni í september 2016. Lauren Holiday eignaðist dóttur þeirra Jrue Tyler Holiday og fór í síðan í aðgerð til að fjarlægja æxlið úr höfði hennar.

Það má sjá innslagið hér fyrir neðan.



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×