Lífið

Víkingaþema á heimsdeginum

Viktoría Hermannsdóttir skrifar
Á heimsdeginum eru ýmsar smiðjur í boði þar sem meðal annars verður hægt að gera víkingabúninga, sverð og skartgripi.
Á heimsdeginum eru ýmsar smiðjur í boði þar sem meðal annars verður hægt að gera víkingabúninga, sverð og skartgripi. Fréttablaðið/Anton Brink
Við viljum bjóða alla velkomna á bókasafnið,“ segir Hólmfríður Ólafsdóttir, verkefnastjóri hjá Borgarbókasafninu.

Í dag verður Heimsdagurinn haldinn hátíðlegur í menningarhúsum Borgarbókasafnsins í Gerðubergi, Spönginni, Kringlunni og Sólheimum.

Heimsdagurinn hefur verið haldinn frá árinu 2005 og frá upphafi hefur hann snúist um að kynnast mismunandi menningarheimum. "Mikil áhersla er lögð á að þýða dagskrána á mörg tungumál og að börn af öllum þjóðernum geti tekið þátt og fái að kynnast því sem Borgarbókasafnið hefur upp á að bjóða,” segir Hólmfríður.

Í ár er víkingaþema en í fyrra voru skuggalegri verur á sveimi eins og vampírur og furðugæludýr. Börnin geta komið og lært um víkinga en einnig fengið að klæðast sem slíkir.

Sextán smiðjur verða í boði, dreifðar á söfnin fjögur og fjölmargt skemmtilegt á dagskrá fyrir alla aldurshópa. „Það verður hægt að búa til búninga, sverð, hjálma, fá bardagagreiðslur og búa til víkingavinabönd,“ segir Hólmfríður.

Skuggasmiðju, rúnaritun og skartgripagerð í anda víkinga verður einnig í boði. Krakkarnir geta síðan fengið ljósmyndir af sér í víkingabúningunum. Heimsdagurinn hefst klukkan 13 og stendur til 16. Nánari upplýsingar um dagskrá á hverju safni er að finna inn á borgarbokasafn.is.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×