Verkfall félagsmanna Eflingar sem starfa hjá nokkrum sveitarfélögum í nágrenni höfuðborgarinnar hefst að nýju á hádegi í dag, en hvorki hefur gengið né rekið í samningaviðræðum hjá Ríkissáttasemjara undanfarið.
Ekki hefur verið boðað til nýs fundar í deilunni. Boðun verkfalls sem hefst á eftir var samþykkt með rúmlega 90 prósentum atkvæða þeirra sem afstöðu tóku. Atkvæðagreiðslan var endurtekin eftir að verkfallsaðgerðum var frestað í lok mars vegna kórónuveirufaraldursins.
Efling hefur þegar samið við Reykjavíkurborg og ríkið „eftir að sóttvarnaryfirvöld gáfu út hvatningu til viðsemjenda um að ganga frá samningum,“ eins og segir í yfirlýsingu Eflingar. Starfsfólkið sem um ræðir starfi starfi í framlínu faraldursins, meðal annars við þrif í grunnskólum og heimaþjónustu.
Aðstandendur skólabarna, ekki síst í Kópavogi, eru uggandi vegna stöðunnar í kjaraviðræðunum. Börn þeirra hafi lítið geta sótt hefðbundna kennslu frá því um miðjan mars vegna verkfalla og veiru og kunni þau illa við að ástandið vari lengur. Nemandi í 9. bekk Kársnesskóla sendi þannig áskorun á Umboðsmann barna og hvatti embættið til að skerast í leikinn. Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, kunni illa við íhlutun umboðsmanns og svaraði erindi hans fullum hálsi.