Körfubolti

Finnur: KR þarf ekki á mér að halda núna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Finnur Freyr Stefánsson gerði frábæra hluti sem þjálfari KR á árunum 2013 til 2018 en undir hans stjórn vann liðið fimm Íslandsmeistaratitla og tvo bikarmeistaratitla á fimm tímabilum.
Finnur Freyr Stefánsson gerði frábæra hluti sem þjálfari KR á árunum 2013 til 2018 en undir hans stjórn vann liðið fimm Íslandsmeistaratitla og tvo bikarmeistaratitla á fimm tímabilum. Vísir/Bára

Finnur Freyr Stefánsson gerði KR að Íslandsmeisturum fimm ár í röð á árunum 2014 til 2018 en hann ákvað að taka við Valsliðinu þegar hann sneri aftur heim til Íslands í stað þess að fara aftur í Vesturbæinn.

Finnur mætti í þáttinn Sportið í dag á Stöð 2 Sport í gær og var meðal annars spurður út í þá ákvörðun að fara ekki aftur heim í KR heldur semja frekar við erkifjendurna á Hlíðarenda.

„Ég mun á einhverjum tímapunkti fara aftur heim í KR en þeir þurfa ekkert á mér að halda núna,“ sagði Finnur Freyr Stefánsson við þá Kjartan Atla Kjartansson og Henry Birgi Gunnarsson í Sportinu í dag.

„Nú tekur maður næsta slag og það er mikilvægt fyrir alla að finna sér áskorun og reyna að sanna sig upp á nýtt,“ sagði Finnur.

„Fólk má hraun yfir mig ef mér gengur illa eða hrósa mér ef mér gengur vel. Mér er alveg sama. Ég ætla að reyna að verða betri þjálfari og það er stóra markmiðið hjá mér,“ sagði Finnur.

„Ég ætla að reyna að bæta mig sem þjálfari og þróa mig áfram. Ég ætla að þróa þetta áfram í Val og sjálfan mig í leiðinni,“ sagði Finnur.

Ingi Þór Steinþórsson er og verður áfram þjálfari KR en hann gerði liðið að Íslandsmeisturum vorið 2019.

„KR-ingar eru vel settir og þeir þurfa ekkert á mér að halda núna. Bikarinn er nánast búinn að festa rætur þarna. Þeir eru í toppmálum og ég þarf að vinna eins og allir aðrir,“ sagði Finnur en það má sjá brot úr viðtalinu við hann hér fyrir neðan.

Klippa: Finnur um KR og framtíðina

Sportið í dag er á dagskrá á Stöð 2 Sport alla virka daga klukkan 15.00. Upptökur af fyrri þáttum má nálgast á sjónvarpsvef Stöðvar 2. Stöð 2 Sport er hluti af Sportpakkanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×