Lífið

Tónleikar á fjórum stöðum um allt land á sama tíma

Mammút er á meðal þeirra hljómsveita sem fram koma á tónleikunum 12. mars.
Mammút er á meðal þeirra hljómsveita sem fram koma á tónleikunum 12. mars. VÍSIR/RONJA MOGENSEN
„Við erum að fagna 100 ára afmæli Alþýðusambandsins. Það hefur verið þannig í gegnum tíðina að það hafa ekki mátt koma saman fimm eða fleiri einstaklingar í verkalýðshreyfingunni, þá er búið að henda í söngbók, þannig að tónlistin hefur fylgt hreyfingunni alla tíð,“ segir Snorri Már Skúlason, deildarstjóri upplýsinga- og kynningarmála ASÍ, léttur í lundu.

Í tilefni afmælisins þann 12. mars býður ASÍ til tónleika á fjórum stöðum á landinu á sama tíma. Þá verða 100 ár liðin frá því að 20 einstaklingar frá sjö verkalýðsfélögum bundust samtökum til að efla samtakamátt sinn í baráttunni fyrir bættum kjörum og Alþýðusambandið varð til.

Uppfært: Afmælishátíð og tónleikaveisla ASÍ fer fram þann 12. mars næstkomandi en ekki í dag eins og fram kom í Fréttblaðinu í dag. Fréttastofa harmar þessi mistök og biðst innilegrar afsökunar á þeim óþægindum sem þessar röngu upplýsingar hafa mögulega valdið.

Þann 12. mars næstkomandi verður því fjölskylduskemmtun í Hörpu, þar sem boðið verður meðal annars upp á tónleika með Páli Óskari og Úlfi Úlfi í Norðurljósasalnum. Auk þess setur Hundur í óskilum upp stutta leiksýningu í Kaldalóni þar sem farið verður yfir athyglisverða hluti úr 100 ára sögu verkalýðshreyfingarinnar.

„Við erum líka með þessu að reyna að ná til yngra fólksins og fengum Grím Atlason til að aðstoða okkur við að skipuleggja þetta,“ segir Snorri Már.

Sama dag, þann 12. mars, klukkan 20.00 nánar tiltekið hefjast svo tónleikar á fjórum stöðum á landinu.

Retro Stefson, Mannakorn, Valdimar, Hundur í óskilum og Mammút eru á meðal þeirra sem koma fram á tónleikum í Eldborgarsalnum í Hörpu.

Þá fer fram ljósmyndasýning og tónleikar í Hofi á Akureyri, þar sem fram koma Agent Fresco, Ylja, Hvanndalsbræður og Emmsjé Gauti. Í Edinborgarhúsinu á Ísafirði fer fram ljósmyndasýning og tónleikar þar sem Mugison og Lára Rúnars koma fram. Í Egilsbúð í Neskaupstað verður einnig ljósmyndasýning og tónleikar þar sem Bjartmar Guðlaugs, Lay Low og Úlfur Úlfur troða upp.

Aðgangur er ókeypis en nauðsynlegt er að nálgast miða á tix.is, þó þarf ekki miða á fjölskylduskemmtunina. Nánar má lesa um herlegheitin á vefsíðu ASÍ.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×