Íslenski boltinn

Stefnir í stórslag FH og ÍBV um Verslunarmannahelgina

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Birkir Sveinsson, mótastjóri Knattspyrnusambands Íslands, staðfesti í kvöld við Vísi að flest bendi til þess að leikur ÍBV og FH í Pepsi-deild karla fari fram um Verslunarmannahelgina.

Sigur FH-inga á Ekranas frá Litháen í 2. umferð forkeppni Meistaradeildar í kvöld þýðir að framundan er stíft leikjadagskrá hjá Hafnarfjarðarliðinu. Leikur liðsins í deildinni gegn Þór sem fara átti fram á sunnudaginn kemur færist fram um einn dag.

FH-ingar mæta Austria frá Vín ytra í fyrri leiknum þriðjudaginn 30. júlí en síðari leikur liðanna fer fram í Kaplakrika viku síðar þann 6. ágúst. ÍBV á að mæta FH í deildinni degi síðar í Eyjum og því augljóst að sú dagsetning gengur ekki lengur upp.

„Mótanefndin kemur ekki saman fyrr en í fyrramálið en við reiknum með því að leikur ÍBV og FH verði á laugardeginum um Verslunarmannahelgina," sagði Birkir í samtali við Vísi í kvöld.

Birkir bendir hins vegar á að takist ÍBV að leggja stórlið Rauðu Stjörnunnar frá Belgrad að velli í síðari leik liðanna í 3. umferð forkeppni Evrópudeildarinnar á fimmtudagskvöldið þurfi að skoða málið upp á nýtt. Eyjamenn töpuðu 2-0 í fyrri leiknum ytra og þurfa því að vinna upp tveggja marka forskot Evrópumeistaranna fyrrverandi á Hásteinsvelli á fimmtudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×