Innlent

Þjóðaröryggisráð í samstarf við Vísindavefinn gegn upplýsingaóreiðu

Kjartan Kjartansson skrifar
Vinnuhópi þjóðaröryggisráðsins var falið að kortleggja og sporna gegn upplýsingaóreiðu í tengslum við kórónuveirufaraldurinn. Tilkynnt var um samstarf hans við Vísindavef Háskóla Íslands í dag.
Vinnuhópi þjóðaröryggisráðsins var falið að kortleggja og sporna gegn upplýsingaóreiðu í tengslum við kórónuveirufaraldurinn. Tilkynnt var um samstarf hans við Vísindavef Háskóla Íslands í dag. Vísir/Vilhelm

Samstarf verður á milli vinnuhóps þjóðaröryggisráðs um upplýsingaóreiðu og Covid-19-faraldurinn og Vísindavefs Háskóla Íslands. Því er ætlað greiða fyrir því að almenningur og fjölmiðlar geti nálgast staðfestar upplýsingar um faraldurinn.

Vinnuhóp þjóðaröryggisráðsins um upplýsingaóreiðu var komið á fót í apríl til að „kortleggja birtingarmyndir og umfang upplýsingaóreiðu í tengslum við Covid-19“ og gera tillögur til að sporna gegn henni.

Í tilkynningu frá embætti landlæknis um samstarf hópsins við Vísindavefinn er vísað til þess að misvísandi og rangar upplýsingar um Covid-19, einkum á samfélagsmiðlum, sé alþjóðlegt vandamál og mikilvægt sé að fjölmiðlar og almenningur geti staðreynt upplýsingarnar sem berist hratt um heiminn.

Sérstök ritnefnd fræðimanna og aðrir sérfræðinga Vísindavefsins hafa þegar svarað fjölda spurninga um faraldurinn undanfarna vikur. Í tilkynningunni segir að samstarfi vinnuhópsins og vefsins sé ætlað að „greiða fyrir því að fjölmiðlar og almenningur geti leitað staðfestingar á upplýsingum sem berast til þeirra með sambærilegum hætti og gert er í mörgum öðrum ríkjum sem Ísland er í samstarfi við á ýmsum sviðum“.

Á meðal þess sem rætt er um að gera með samstarfinu er að birta svör Vísindavefsins um Covid-19 á upplýsingasíðunni Covid.is, á samfélagsmiðlum undir merkjum Vísindavefsins, embættis landlæknis og almannavarnanefndar ríkislögreglustjóra.

Þá er hugmynd um að fjölmiðlar og blaðamenn geti leitað til ritnefndar Vísindavefsins um staðreyndavöktun á fréttum sem tengjast faraldrinum og að embætti landlæknis og Vísindavefurinn vinni saman að því að svara og halda utan um fyrirspurnir, bæði þeim sem koma í gegnum Covid.is og til Vísindavefsins beint.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×