Innlent

Bestu kosningalög á Norðurlöndum

„Þetta eru bestu kosningalögin á Norðurlöndunum," segir Guðmundur Magnússon, formaður Öryrkjabandalags Íslands, um fyrirhugaða lagabreytingu á kosningalögum. Breytingin gerir fötluðum kleift að velja sér aðstoðarfólk við kosningar.

Guðmundur segir að gott samstarf hafi verið haft við ÖBÍ og Blindrafélagið við samningu laganna. Farið hafi verið eftir athugasemdum félaganna í nánast öllum atriðum. Hann vonast til að málið fái skjóta meðferð á þingi, en Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra mælir fyrir breytingunum í vikunni.

„Ég er að fara á norrænan fund í næstu viku og þar ætla ég að monta mig af lögunum. Það er mjög sjaldgæft að við getum það, því yfirleitt erum við þetta 15 til 20 árum á eftir í þessum málaflokki."

Gert er ráð fyrir því að grundvallarreglan sé sú að kjörstjórnir aðstoði þá sem ekki geta kosið hjálparlaust. Ef viðkomandi vill sjálfur velja sér aðstoðarmann er honum það heimilt.

Stefnt er að því að lagabreytingin verði gengin í gildi fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrá, sem fram fer 20. október. Utankjörfundaratkvæðagreiðsla er hafin, en Ögmundur segir það mat manna að vel sé hægt að breyta lögunum þó kosningarnar séu í raun hafnar. Um rýmkun á rétti fatlaðra sé að ræða.- kóp




Fleiri fréttir

Sjá meira


×