Erlent

Njósnari rekinn frá Rússlandi

Þórunn Elísabet Bogadóttir skrifar
Rússar segja þetta muni sem fundust í fórum Fogle. Þarna eru hárkollur, vopn, leiðbeiningar fyrir njósnara og persónulegir munir.
Rússar segja þetta muni sem fundust í fórum Fogle. Þarna eru hárkollur, vopn, leiðbeiningar fyrir njósnara og persónulegir munir. fréttablaðið/ap
Bandarískur njósnari í dulargervi var handsamaður í Moskvu fyrir skemmstu. Njósnarinn var að reyna að fá rússneskan njósnara til liðs við bandarísku leyniþjónustuna CIA með því að bera á hann fé, að því er rússnesk stjórnvöld greindu frá í gær. Maðurinn þarf að yfirgefa Rússland strax.

Ryan Fogle starfaði fyrir bandaríska sendiráðið í Moskvu og var með hárkollu, ýmsan tæknibúnað og mikið magn af peningaseðlum þegar hann var handtekinn. Leyniþjónustan í Rússlandi segir að njósnarinn sem reynt var að fá til liðs við Bandaríkjamenn sé sérfræðingur í Kákasus-svæðinu, en þaðan eru bræðurnir sem eru grunaðir um að hafa sprengt tvær sprengjur í Boston-maraþoninu í síðasta mánuði.

Bandaríkjamenn og Rússar hafa opinberlega unnið saman að því að komast til botns í því hvort Tamerlan Tsarnaev hefði verið í samskiptum við herskáa íslamista í Dagestan. Rússnesk yfirvöld lýstu því yfir vonbrigðum sínum með að Bandaríkjamenn skyldu leynilega vera að rannsaka málið.

Málið gæti haft alvarleg áhrif á samskipti ríkjanna tveggja, sem hafa verið viðkvæm undanfarin misseri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×