Innlent

Þjóðvegasjoppa farin á hausinn

Kristján Már Unnarsson skrifar

Ein af rótgrónustu þjóðvegasjoppum landsins, Skriðuland í Saurbæ, er farin á hausinn. Um leið missti norðanverð Dalasýsla einu verslun sína. Heimamenn vonast þó til að einhver taki upp þráðinn á ný, enda hafi umferðin tvöfaldast þegar Ísfirðingar fóru að aka um hlaðið.

Skriðuland var ein af sjoppunum á leiðinni vestur á firði. Sveitafólkið á Skarðsströnd og í Saurbæ missti líka búðina sem var næst þeim þegar hér var skellt í lás um síðustu áramót. Það töpuðust einnig störf sem skiptu máli í sveitinni, eins og Sæmundur Kristjánsson, síðasti oddviti Saurbæjarhrepps, lýsti í viðtali í fréttum Stöðvar 2, en sveitin er nú hluti Dalabyggðar.

Arion-banki tók yfir eignirnar á Skriðulandi vegna gjaldþrots fyrrverandi eiganda en Sæmundur telur þó að verslunin eigi eftir að lifna á ný. Hann veit til þess að aðilar hafi sýnt því áhuga og telur rekstrargrundvöll hafa styrkst eftir að vegurinn um Arnkötludal var opnaður og Ísafjarðarumferðin færðist yfir á Dalina.


Tengdar fréttir

Sýslumaðurinn farinn úr Dalasýslu

Dalamenn óttast að saga sýslumannsembættis Dalasýslu, sem talin er ná aftur til þrettándu aldar, sé brátt öll. Frá síðustu mánaðamótum hefur sýslumaður Snæfellsness gegnt embættinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×