Erlent

Brúðgumi myrtur af boðflennum

Samúel Karl Ólason skrifar
Joe Melgoza var 30 ára gamall.
Joe Melgoza var 30 ára gamall. Vísir/Getty/GoFundMe

Brúðgumi var myrtur af tveimur boðflennum sem beðnir voru um að yfirgefa brúðkaupsveislu sem þeir höfðu laumað sér í. Lögreglan í Chino í Kaliforníu var kölluð til á laugardaginn eftir að mennirnir tveir voru beðnir um að fara úr veislunni. Þeir sneru þó aftur með kylfur og réðust á brúðgumann, Joe Melgoza.

Veislan var haldin í bakgarði Melgoza og fannst hann í garði nærliggjandi húss þar sem hann lá í sárum sínum. Hann dó á sunnudaginn en hann hafði hlotið þungt högg á höfuðið sem leiddi hann til dauða.

Samkvæmt NBC í Los Angeles hafa bræðurnir Rony og Josue Castañeda Ramirez verið handteknir. Það er óljóst hvort þeir þekktu brúðgumann eða brúðina.



Miðillinn KTLA segir lögregluna nú rannsaka hvert tilefni árásarinnar var. Tveir aðrir slösuðust lítillega í átökunum.



Í samtali við NBC sagði Andy Velasquez, bróðir hins myrta, að bróðir hans hefði ekki átt skilið að deyja á þennan hátt. Hann hefði verið góður maður. Melgoza skilur eftir sig ellefu ára dóttur sem hann átti með annarri konu en þeirri sem hann var að giftast á laugardaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×