Erlent

Íranir ganga að kjör­borðinu

Atli Ísleifsson skrifar
Ajatollah Ali Khamenei sagði það trúarlega skyldu að kjósa.
Ajatollah Ali Khamenei sagði það trúarlega skyldu að kjósa. AP

Þingkosningar fara fram í Íran í dag en alls hafa yfirvöld meinað um níu þúsund stjórnarandstæðingum að bjóða sig fram. Reiknað er með að litið verði á kjörsóknina sem mælistiku á ánægju almennings með stjórnvöld.

Ólíklegt þykir að kosningarnar muni leiða til mikilla umskipta í írönskum stjórnmálum, bæði hvað varðar innanríkis- og utanríkismál. Fastlega er búist við að harðlínumenn muni hafa sigur, eftir að frambjóðendum, sem erlendir fjölmiðlar lýsa sem „hófsömum“ og „umbótasinnuðum“, var meinuð þátttaka. 

Ajatollah Ali Khamenei æðstiklerkur var fyrstur til að greiða atkvæði í morgun og var sýnt frá því beint í ríkissjónvarpi landsins. Sagði hann það „trúarlega skyldu“ að kjósa og hvatti hann alla landsmenn til að mæta á kjörstað sem fyrst.

Stjórnvöld í Íran hafa að undanförnu sætt nokkurri gagnrýni heima fyrir vegna þrenginga í efnahagslífi og aukinnar einangrunar landsins.

Alls eru um 58 milljónir Írana á kjörskrá, en barist er um 290 þingsæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×