Loftið var nokkuð rakt á suðvesturhorninu í gærkvöldi og aðeins farið að bera á þokubökkum fyrir miðnætti. Svifryk frá flugeldum gerði svo útslagið og úr varð þétt þoka úr röku lofti og reyk.
Þetta kemur fram í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands. Þar segir að nú í morgun sé loftið farið að hreinsast, þó enn sitji ryk í lægðum.
„Er líður á daginn er þó vaxandi sunnanátt vestantil á landinu sem mun blása restunum af svifrykinu í burtu. Í kvöld hlýnar og þykknar upp með rigningu en áfram verður bjart og kalt í öðrum landshlutum framá morgundagin,“ segir í færslu veðurfræðings sem endar með ósk um gleðilegt nýtt ár.
Hér að neðan má sjá veðurhorfur á landinu næstu daga, samkvæmt Veðurstofu Íslands.
Á sunnudag:
Sunnan og síðar suðvestan 8-15 m/s, hvassast við vesturströndina. Rigning eða súld sunnan og vestantil en þurrt að mestu í öðrum landshlutum. Gengur í suðvestan 13-18 með slyddu á Vestfjörðum og á Vesturlandi um kvöldið. Hiti 2 til 8 stig.
Á mánudag:
Suðvestan 8-15 m/s og skúrir eða él vestantil en úrkomulítið um landið austanvert. Hiti um og undir frostmarki, en að 3 stiga hita við SV-ströndina.
Á þriðjudag:
Suðvestan átt með él um vestanvert landið, en þurrt að kalla austantil. Frost 0 til 6 stig.
Á miðvikudag:
Útlit fyrir norðanátt og snjókomu, en bjartviðri syðra. Kalt í veðri.
Á fimmtudag:
Minnkandi norðanátt og dálítil él fyrir norðan, einkum NA-til. Talsvert frost.