Fótbolti

Inter á toppinn eftir markaveislu

Anton Ingi Leifsson skrifar
Lautaro fagnar einu af mörkum sínum í dag.
Lautaro fagnar einu af mörkum sínum í dag. Mattia Ozbot/Getty

Inter er komið á topp ítölsku úrvalsdeildarinnar eftir 6-2 sigur á Crotone í dag. Lautaro Martinez fór á kostum en heil umferð fer fram á Ítalíu í dag.

Gestirnir frá Crotone komust yfir á tólftu mínútu með marki Niccolo Zanellato en átta mínútum síðar jafnaði Lautaro Martinez metin eftir undirbúning Romelu Lukaku.

Inter komst svo yfir á 31. mínútu með sjálfsmarki Luca Marrone eftir skot Lautaro Martinez en Crotone jafnaði úr vítaspyrnu fimm mínútum síðar. Markið skoraði Vladimir Golemic.

Staðan var því 2-2 í hálfleik en á tólftu mínútu síðari hálfleiks skoraði Lautaro Martinez þriðja. Tvö mörk frá Argentínumanninum.

Inter voru ekki hættir því á 64. mínútu bætti Romelu Lukaku við fjórða markinu og Martinez fullkomnaði svo þrennuna ellefu mínútum fyrir leikslok.

Achraf Hakimi skoraði sjötta og síðasta mark Inter á 87. mínútu og lokatölur 6-2.

Þeir eru með 36 stig, tveimur stigum á undan AC Milan, sem á þó leik til góða, gegn Benevento síðar í dag.

Crotone er í nítjánda sætinu með níu stig.


Ítalski boltinn, Serie A, er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Serie A er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×