Erlent

Svæðisbundnar aðgerðir verði líklega hertar í Bretlandi

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands.
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands. WPA Pool/Getty

Svæðisbundnar reglur í Bretlandi, til að hefta útbreiðslu covid-19, verða að öllum líkindum hertar að sögn Boris Johnson forsætisráðherra.

Í samtali við BBC segir Johnson að hugsanlega verði nauðsynlegt að grípa til hertari aðgerða í hluta landsins á næstu vikum. Til að mynda kunni að vera að skólar verði lokaðir jafnvel þótt það sé „ekki eitthvað sem við viljum gera,“ líkt og haft er eftir forsætisráðherranum.

Keir Starmer, leiðtogi Verkamannaflokksins, hefur kallað eftir að aðgerðir verði hertar á landsvísu innan sólarhrings. Hann segir kórónuveiruna „augljóslega vera að fara úr böndunum“ og að það væri „óhjákvæmilegt að fleiri skólar þurfi að vera lokaðir.“

Sjötta daginn í röð greindust yfir fimmtíu þúsund með covid-19 í Bretlandi en síðasta sólarhring greindust rétt tæplega 55 þúsund manns með veiruna í landinu.

Johnson sagði í viðtali við BBC One að hann muni standa við sína fyrri spá um að ástandið verði orðið betra með vorinu og að hann voni að tugir milljóna verði bólusettir á næstu þremur mánuðum.

„Það getur verið að við þurfum að gera hluti á næstu vikum sem mun taka meira á í sumum landshlutum. Ég sætti mig fyllilega við það,“ sagði Johnson. „Og ég veðja á að fólkið í landinu sætti sig við það, vegna þess að þar til bóluefnið kemur inn í stríðum straumi þá erum við að berjast við þessa veiru með sömu aðgerðum,“ sagði Johnson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×