„Áréttað er að í mörgum Evrópuríkjum er í gildi bann við landgöngu ferðafólks frá Bretlandi vegna hraðrar útbreiðslu nýs afbrigðis af COVID-19 sem þar hefur greinst. Þetta hefur áhrif á þau sem fljúga frá Íslandi til annarra landa með millilendingu í Bretlandi,“ segir í færslunni.
Því sé þeim sem þurfa að ferðast á næstunni ráðlagt að forðast að fljúga í gegnum flugvelli á Bretlandi vegna raskana sem slíkar aðgerðir hafa haft í för með sér.
Bretar herða aðgerðir á næstunni
Bretar munu líklega herða svæðisbundnar aðgerðir til að hefta útbreiðslu kórónuveirunnar á næstunni, en afbrigði veirunnar sem talið er meira smitandi en flest önnur herjar nú á Bretlandseyjar.
Í samtali við BBC sagði Boris Johnson forsætisráðherra að hugsanlega verði nauðsynlegt að grípa til hertari aðgerða í hluta landsins á næstu vikum. Til að mynda kunni að vera að skólar verði lokaðir jafnvel þótt það sé „ekki eitthvað sem við viljum gera,“ líkt og haft er eftir forsætisráðherranum.