Fótbolti

Sjáðu þegar Ronaldo sló met Pelé

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Cristiano Ronaldo kom með beinum hætti að þremur mörkum í fyrsta leik Juventus á árinu 2021.
Cristiano Ronaldo kom með beinum hætti að þremur mörkum í fyrsta leik Juventus á árinu 2021. getty/Alberto Gandolfo

Cristiano Ronaldo byrjaði árið 2021 af krafti en Portúgalinn skoraði tvö mörk og lagði upp eitt í 4-1 sigri Juventus á Udinese í ítölsku úrvalsdeildinni í gær.

Með mörkunum tveimur komst Ronaldo upp fyrir Pelé þegar mörk með félagsliði og landsliði eru tekin saman. Ronaldo hefur nú skorað 758 mörk á ferlinum, einu meira en Pelé gerði á sínum tíma.

Ronaldo kom Juventus yfir með föstu skoti í fjærhornið á 31. mínútu. Staðan var 1-0 í hálfleik, Juventus í vil.

Í upphafi seinni hálfleiks gaf Ronaldo stungusendingu á Federico Chiesa sem kom Juventus í 2-0. Á 70. mínútu skoraði Ronaldo svo sitt annað mark eftir sendingu frá Rodrigo Bentancur.

Marvin Zeegelaar minnkaði muninn fyrir Udinese á 90. mínútu en þremur mínútum síðar skoraði Paolo Dybala fjórða mark ítölsku meistaranna. Mörkin úr leiknum má sjá hér fyrir neðan.

Klippa: Juventus 4-1 Udinese

Juventus er í 5. sæti ítölsku úrvalsdeildarinnar með 27 stig, tíu stigum á eftir toppliði AC Milan sem er einmitt næsti andstæðingur Juventus. Liðin mætast á San Siro á miðvikudaginn.

Ronaldo er markahæstur í ítölsku úrvalsdeildinni með fjórtán mörk í aðeins ellefu leikjum.


Ítalski boltinn, Serie A, er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Serie A er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×