Erlent

Vonin úti í Ask

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Ekki er talið mögulegt að enn sé hægt að finna fólk á lífi í skriðurústunum.
Ekki er talið mögulegt að enn sé hægt að finna fólk á lífi í skriðurústunum. AP/Terje Pedersen / NTB

Lögregluyfirvöld í Noregi hafa gefið upp von um að þeir þrír einstaklingar sem enn er saknað eftir leirskriðuna í bænum Ask í Noregi í síðustu viku finnist á lífi.

Þetta kom fram í máli lögreglustjórans Idu Melbo Øystese á blaðamannafundi nú fyrir skömmu.

 Yfirvöld hafa lengi haldið í vonina að hægt væri að finna einhvern á lífi í rústum skriðunnar sem féll 30. desember síðastliðinn. Tíu var saknað og af þeim hafa sjö fundist látnir.

Á blaðamannafundinum var farið yfir það að leitaraðilar hafi farið yfir skriðusvæðið á þann hátt að útilokað sé talið að einhver geti leynst þar á lífi. Verið er að útfæra hvernig hægt er að halda leitinni að þeim sem saknað er áfram, þótt búið sé að útiloka að þau finnist á lífi.

Björgunaraðilar hafa notið liðsinnis norska hersins við leitina, og þá hafa starfsmenn almannavarna dælt vatni úr tjörn sem hefur byrjað að renna inn á hamfarasvæðið og þannig gert leitina enn erfiðari.

Þá hafa skriður haldið áfram að falla í skriðusárið en björgunarmenn þurftu að forða sér undan skriðu sem féll í morgun.


Tengdar fréttir

Hlé gert á leitinni í Ask

Leitað var í alla nótt í rústum húsanna sem eyðilögðust í skriðuföllunum í norska bænum Ask á dögunum. Sjö hafa fundist látin eftir hamfarirnar og að minnsta kosti þriggja er enn saknað.

Sjöunda manneskjan fundin látin í Ask

Björgunarfólk í norska bænum Ask hefur nú fundið sjöundu manneskjuna látna á hamfarasvæðinu sem gríðarstórar skriður ollu á aðfaranótt miðvikudags. Þriggja er enn saknað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×